138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:18]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan um að það er auðvitað fráleitt að halda þessum fundi áfram meðan hér er allt í fullkominni óvissu. Það væri fullkomið gerræði af hálfu ríkisstjórnarinnar að reyna að keyra málið í gegn við þessar aðstæður. Er það virkilega ætlun ríkisstjórnarflokkanna að láta þingmenn greiða atkvæði um þetta mál án þess að þeir hafi haft tök á því að kynna sér upplýsingar sem kunna að reynast mjög mikilvægar í þessu máli? Hvers konar vinnubrögð eru það? Ég spyr: Hvaða nauðsyn rekur menn til þess að klára þetta mál með atkvæðagreiðslu á þessum degi? (Gripið fram í.) Búast menn við því að það komi herskip hér upp að landi á morgun ef þetta verður ekki samþykkt? Hvað eru menn að hugsa? Hvernig stendur á þessu? Er þetta ekki bara vegna ótta fólks sem hefur gersamlega farið á taugum vegna þess að það stendur hér (Forseti hringir.) berskjaldað vegna mistaka á mistök ofan?