146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

leit að týndum börnum.

468. mál
[19:08]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég beini hér fyrirspurn til hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra um samstarfsverkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og velferðarráðuneytisins um leit að týndum börnum sem komið var á í nóvember 2014. Í ritgerðinni „Týndu börnin í fjölmiðlum: Áhættuþættir unglinga sem strjúka að heiman“, eftir Unni Kristínu Sigurgeirsdóttur og Bryndísi Hall frá 2014, kom fram að heimilisaðstæður, vímuefnaneysla og upplifun í skóla væru helstu áhrifaþættirnir í því að börn strykju að heiman. Sú áhættuhegðun sem algengust væri hjá börnunum sem týnast væri vímuefnaneysla og hegðunar- og geðrænir erfiðleikar, en listinn væri hins vegar engan veginn tæmandi. Það væri oft þannig að börn sem strykju að heiman hefðu verið vistuð á stofnunum vegna áhættuhegðunar og væru mjög oft ósátt við að vera vistuð og vildu ekki fara í meðferð heldur vera í því umhverfi sem neyslan býður upp á.

Það sem ég myndi vilja spyrja um er um árangurinn af þessu tilraunaverkefni. Eins og ég fór í gegnum erum við að fjalla hér um börn sem eiga mjög erfitt, búa oft jafnvel við erfiðar aðstæður, eru í neyslu, eiga í erfiðleikum í skóla. Í bréfi félagasamtakanna Olnbogabörnin til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var hvatt þess til að verkefninu yrði haldið áfram. Þar kom fram að verkefnið væri mjög brýnt og að þau teldu að það hefði skilað umtalsverðum árangri. Það hefði náðst að stytta viðbragðstíma lögreglunnar til muna þegar tilkynnt væri um týnd ungmenni, það þyrfti síður að lýsa eftir þeim í fjölmiðlum, þau fyndust fyrr og væru því skemur í aðstæðum sem væru þeim hættulegar, ekki hvað síst með fullorðnum, hættulegum einstaklingum.

Það vakti líka athygli mína að samtökin bentu á að þau teldu að verkefnið hefði líka leitt til ákveðinnar viðhorfsbreytingar innan lögreglunnar hvað varðaði börn og ungmenni með áhættuhegðun og að foreldrar, forsjáraðilar og börnin sjálf bæru aukið traust til lögreglunnar og fyndu að vel væri tekið á stöðu þeirra og vanda. Það væri litið alvarlegum augum að verið væri að hýsa börn og ungmenni undir lögaldri í leyfisleysi.

Í nýbirtri afbrotatölfræði lögreglunnar frá því í mars 2017 kemur fram að lögreglan hafi aldrei fengið fleiri beiðnir um leit að týndum ungmennum frá því að verkefnið hófst, í nóvember 2014. Alls bárust 32 beiðnir um leit, samanborið við 19 beiðnir í febrúar. Aukningin var þá á ári 53% en bárust að meðaltali tvö ár á undan.

Ég hef mikinn áhuga á að heyra frá ráðherranum hvernig hann metur reynsluna af þessum tilraunaverkefni og hver séu áform hans og þá lögreglunnar, og þá væntanlega barnaverndaryfirvalda líka sem heyra undir hæstv. ráðherra, um framtíð þessa verkefnis.