148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

Afbrigði um dagskrármál.

[16:55]
Horfa

Smári McCarthy (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Þetta verður eitthvað auðveldara núna. Samkvæmt starfsáætlun Alþingis skyldi þingfrestun fara fram fimmtudaginn 7. júní. Það eru aðeins þrír þingfundardagar þangað til Alþingi fer í sumarfrí samkvæmt því. Nú kann að vera ljóst að einhver töf verði á því að þingi verði frestað. En þrátt fyrir það verður að teljast með öllu ótækt að vera að nýta tíma þingsins til að ræða um margra milljarða króna lækkun á veiðigjöldum sem gagnast engum nema íslenskum útgerðarfyrirtækjum. Er réttlætanlegt að fórna öllu sem gæti talist nokkurs konar samkomulag um til þess að tryggja þessum útgerðarmönnum aukið fjármagn? Ég velti því fyrir mér hver forgangsröðun forseta sé. Forseti er einbeittur í vilja sínum til að rústa samstarfinu við minni hlutann og í þágu þess ætlar hann að tryggja margra milljarða ívilnun til íslenskra útgerðarfyrirtækja. Þetta er út í hött, algerlega út í hött. Getum við vinsamlegast reynt sem þing að einbeita okkur að því sem skiptir máli? Það er nóg til af slíkum málum.