148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

brottnám líffæra.

22. mál
[21:58]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil í örfáum orðum nota þetta tækifæri og fjalla örlítið um þetta frumvarp, um breytingar á lögum um brottnám líffæra, eða ætlað samþykki eins og við nefnum það. Þessi breyting er viðbrögð við lögunum frá 1991 í ljósi reynslunnar sem við höfum fengið af þeim lögum. Nú er lögð áhersla á að fyrir liggi ætlað samþykki í stað þess að fremur sé gengið út frá því að um neitun sé að ræða og viðkomandi sé kannski andvígur eða hafi ekki tekið afstöðu til þessa og leita þurfi ásjár nánustu ættingja.

Hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson fór mjög ágætlega yfir það hvernig aðstæður eru þegar nýta þarf þennan möguleika til líffæraflutninga eða brottnáms líffæra. Það eru erfiðar stundir sem aðstandendur standa frammi fyrir, því að iðulega er um að ræða ungt fólk í blóma lífsins sem fellur frá við erfiðar aðstæður.

Þetta ætlaða samþykki á auðvitað við um það þegar og ef hinn látni hefur ekki lýst sig andvígan brottnámi líffæra. Við höfum í mörg ár rætt þetta í samfélaginu og hvatt til þess að einstaklingar taki afstöðu til þess hvort þeir myndu geta hugsað sér að gefa líffæri sín að sér gengnum ef til þess þyrfti að koma. Þetta hefur verið hægt að gera bæði skriflega og í seinni tíð, eins og fram kom hjá hv. þm. Willum Þór Þórssyni, með rafrænum hætti. Þetta á sér ríkan hljómgrunn meðal þjóðarinnar. Það staðfestist einmitt í könnun sem gerð hefur verið á vegum Læknablaðsins eins og fram kom hjá hv. þingmanni. Þar liggur þjóðarviljinn, held ég sé.

Það má fara mörgum orðum um þetta. Ég held að þetta sé til mikilla bóta. Framsögumaður, hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir, fylgdi þessu nefndaráliti úr hlaði, nefndaráliti velferðarnefndar og gerði það með miklum sóma. Ég staldraði hins vegar við, það verð ég að viðurkenna, og var dálítið hugsi yfir þessari málsgrein í 2. gr., með leyfi forseta:

„Ekki má þó nema brott líffæri eða lífræn efni úr líkama látins einstaklings til nota við læknismeðferð annars einstaklings leggist nánasti vandamaður hins látna gegn því.“

Ég tel að rauði þráðurinn í þessum lögum sé einmitt það að við séum að standa vörð um eða virða sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins, hann ráði yfir sínum líkama og hann ráði því hvað verði gert við hann að honum gengnum ef eitthvað nothæft er eftir. Hér kemur líka fram að nokkrir umsagnaraðilar hafi velt vöngum yfir þessu.

Þetta var rætt dálítið í nefndinni og að þeirri umræðu lokinni varð ég þess fullviss að ástæðulaust væri að vera með fyrirvara. Við vorum fullvissuð um að í flestum tilvikum væri farið að vilja aðstandenda og það væri mjög sjaldgæft að þetta væri ekki greiðlega leyst og það væru þá einhverjar mjög sérstakar ástæður sem til þyrfti og til væru.

Ég hafði enga fyrirvara á þessu og skrifaði undir þetta með mínum ágætu nefndarmönnum sem unnu vel. Það var mikill samhljómur í nefndinni um þetta mál og hreinskiptar umræður. Við teljum að þetta ákvæði sé mjög til bóta. Eins og hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson nefndi gætum við með þessu hugsanlega í ríkari mæli orðið veitendur á þessu sviði en við höfum þegið líffæri í nokkrum mæli frá nágrannaþjóðunum.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég fagna því að frumvarpið er komið hér til umfjöllunar og vona að það verði að lögum á þessu þingi.