149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[15:04]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Tilefni þessarar breytingartillögu er að í upphafi hafði nefndin fengið þau skilaboð að þar sem samningar við landeigendur og hönnun á veginum frá Kjalarnesi væru ekki komin það langt að það væri hægt að hefja útboð á fyrsta áfanga á þessu ári þætti ekki ástæða til að binda fé á þeim tíma þó að það yrði bætt upp síðar á tímabilinu.

Eftir fund með Vegagerðinni og yfirferð í ráðuneytinu yfir þessi mál komust menn að þeirri niðurstöðu að hægt væri að bjóða út fyrsta áfangann á þessu ári.

En það er ástæða til að nefna það í þessu samhengi að verði veggjaldahugmyndin að veruleika verður hægt að fara af fullum krafti í fullnaðarfrágang á Kjalarnesi með miklu betri hætti en efni standa annars til, til að mynda tvöföldun og jafnvel mislæg gatnamót í stað 1+2 lausna með hringtorgum. Þarna verður breytingin miklu hraðari og miklu betri. (Gripið fram í: Án veggjalda.)