154. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2024.

vopnalög.

349. mál
[14:22]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hér er komið nýtt nefndarálit frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Sjá má að búið er að falla frá breytingunni um að leyfa innflutning á safnvopnum frá síðari heimsstyrjöldinni, sem er vel, og ég tel að það sé gott mál að þessi breytingartillaga sé ekki lengur til staðar í nefndarálitinu. Það er til bóta. Líka er vert að minna á að tilefni þessa frumvarps var það að eftir úrskurð þáverandi innanríkisráðuneytis frá árinu 2015 var felld úr gildi ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að synja einstaklingi um að flytja inn vopn sem viðkomandi hélt fram að væru safnvopn. Hefur slíkum vopnum fjölgað gríðarlega mikið frá 2015. Sem dæmi má nefna að á árunum 2012–2017 voru engin slík vopn flutt hingað til lands en frá árinu 2018 til ársins 2021, eða á fjórum árum, voru flutt inn 1.404 safnvopn. Af þeim 1.358 safnvopnum sem flutt voru til landsins frá ársbyrjun 2019 til loka árs 2021 voru 462 sjálfvirk og 655 sjálfvirk vopn voru skráð á landinu í upphafi árs 2022. Þar af voru 20 einstaklingar sem áttu 161 þessara hálfsjálfvirku eða sjálfvirku vopna. Þeir áttu raunverulega bara vopnabúr.

Ég tel ekki rétt að þessi glufa, ef við getum kallað hana það, fyrir sjálfvirk og hálfsjálfvirk vopn hafi verið notuð með þessum hætti eftir að úrskurðurinn féll og það er mjög gott að við setjum löggjöf til að bregðast við stjórnsýsluúrskurði sem hafði þessar afleiðingar. Við eigum að gera það oftar, að bregðast við stjórnsýsluúrskurðum í stjórnkerfinu þegar við teljum að þeir séu rangir en stefnumótun er með þessum hætti eins og var í úrskurði innanríkisráðuneytisins. Ég get tekið dæmi um umdeilt mál. Þegar kærunefnd útlendingamála tók stefnumarkandi ákvörðun varðandi hælisleitendur frá Venesúela þá átti Alþingi Íslendinga að bregðast við. Flokkur fólksins var með breytingartillögu um að bregðast við þeim úrskurði sem lýtur að efnahagslegum innflytjendum og flóttamönnum.

En þetta er gott mál og eins og kom fram við meðferð frumvarpsins er hafin vinna og verður unnið að heildarendurskoðun þessara mikilvægu laga. Það verður spennandi að sjá. Vonandi verður farið vel í saumana á þessum lögum þannig að við fáum fullnægjandi lög hvað þetta varðar. Ég lít á þetta frumvarp sem eins konar millileik. Það var rétt ákvörðun hjá meiri hluta nefndarinnar að gefa ekki þessa glufu varðandi vopn í síðari heimsstyrjöldinni sem tengdust hernámsliðinu. Það hefði verið glufa sem hefði getað stækkað og stækkað. Það var ekki einu sinni skilgreint nægilega hvaða tegundir vopna þetta væru, hvaða tegundarheiti þetta væru af hálfsjálfvirkum byssum og öðru slíku. Við eigum ekki að stuðla að því að það verði mikil vopnaeign nema þá til skotveiða, sportveiða og annarrar slíkrar iðju. Að sjálfsögðu verður það bara opinbera lögreglan sem ber vopn en fólk á að geta stundað skotveiðar og þetta sport, skotfimi. Ég vonast til að þetta mál nái fram að ganga.