131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[14:48]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það er um margt hægt að vera sammála síðasta ræðumanni og ég mun víkja aðeins frekar orðum að því. Hér er til umræðu frumvarp til laga um skattskyldu orkufyrirtækja. Í greinargerð er rakið að þær lagabreytingar sem boðaðar eru um að gera orkufyrirtækin skattskyld er liður í markaðsvæðingarferli raforkugeirans. Við höfum á undanförnum vikum einmitt rætt um afleiðingar og framkvæmd nýsettra orkulaga, um þann gjörning meiri hluta þingheims og ríkisstjórnarinnar að markaðsvæða raforkukerfið, skilja á milli orkuvinnslu, orkuflutnings og orkudreifingu, skipta þessu upp í fyrirtæki sem öll eiga að fara að reikna sér arð af fjármagni og eignum sem bundnar eru í þjónustunni. Verið er að snúa á haus þeirri skilgreiningu sem þjóðin hefur talið að ætti að gilda um rafmagnið, að rafmagnið væri ein af grunnstoðum grunnalmannaþjónustu landsins, að rafmagnið væri forsenda fyrir búsetu og atvinnulífi í landinu og ætti þess vegna ekki að vera á grunni fyrirtækjareksturs, sem hugsaði fyrst og fremst um að skapa sér arð, heldur að vera þjónusta við atvinnulíf, búsetu og almenningsþarfir.

Þarna er verið að breyta. Grunnþjónustan á bara að vera markaðsvædd viðskiptaþjónusta og lúta þeim lögmálum. Ofan í kaupið er því borið við að verið sé að fylgja eftir einhverjum Evróputilskipunum með einkavæðingarráðherrann, hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerði Sverrisdóttur, í broddi fylkingar sem brosir blítt við sjálfri sér í hvert skipti sem hún flytur nýtt frumvarp um einkavæðingu almannaþjónustunnar, fulltrúi Framsóknarflokksins í ríkisstjórn.

Við bentum rækilega á það við umræðurnar um að breyta raforkukerfinu í fyrirtækjarekstur sem skilar arði að menn væru á fullkomnum villigötum. Sú breyting gæti ekki leitt til annars en hækkaðs verð og ótryggari afhendingu á þeirri grunnalmannaþjónustu sem rafmagn er. Það kemur á daginn. Nú eftir áramótin birtast nýjar gjaldskrár veitufyrirtækjanna, og hvað? Auðvitað snarhækka þær. Þá koma hv. fulltrúar einkavæðingarinnar og markaðsvæðingarinnar og segja: Þetta kom mér alveg fullkomlega á óvart, þetta kemur algjörlega í bakið á mér. Mér datt ekki í hug að þetta leiddi til neinnar hækkunar.

Trúir þjóðin svona barnalegum málflutningi? Nei, hún trúir honum ekki og hún treystir nú ekki ráðamönnum.

Við fáum ályktanir frá hverju sveitarfélaginu á fætur öðru þar sem stefnu ríkisstjórnarinnar í raforkumálum er mótmælt. Markaðsvæðingu raforkukerfisins er mótmælt, því er mótmælt að almenningur og fyrirtæki vítt og breitt um landið, sérstaklega í dreifbýlinu og sérstaklega til sveita, eigi að borga herkostnað markaðsvæðingar og einkavæðingar raforkugeirans.

Nú síðast komu mótmæli frá Skaftárhreppi til okkar þingmanna þar sem þessu var harðlega mótmælt, en önnur sveitarfélög á Norðurlandi og Vestfjörðum hafa mómælt stefnu ríkisstjórnarinnar í markaðsvæðingu raforkugeirans. En áfram er hausnum stungið ofan í sandinn og keyrt og enn er ekki séð fyrir hvernig framkvæma á hin nýsettu raforkulög, það er ekki enn séð hverjar afleiðingarnar af þeim verða, það er ekki enn séð fyrir hvernig við þeim verði brugðist.

Það var umræða í síðustu viku um hvaða aðgerða væri hægt að grípa til til þess að koma í veg fyrir þá gríðarlegu mismunun sem er að verða á milli íbúa landsins eftir búsetu hvað varðar rafmagn og verð á rafmagni. Þá sagði hæstv. iðnaðarráðherra: Komið verður til móts við þá notendur sem lenda hvað harðast úti. Rausnarskapurinn og höfðingsskapurinn var nú ekki meiri. Það var ekki sagt: Við skulum sjá til þess að verð á rafmagni til íbúa hinna dreifðu byggða verði ekki óhagstæðara en íbúa þéttbýlisins. Nei, það var sagt: Við skulum koma til móts við þetta. Það þýðir: Við komum til hálfs til móts við þetta til að byrja með, setjum smá plástur á.

Sama sagði hv. þm. Dagný Jónsdóttir: Stefnt verður að því að koma til móts við. Hvað þýðir það? Jú, það var stundum kallað að hrækja í sárið til að draga úr sviðanum meðan hann var mestur — og líkja má líkja yfirlýsingum hæstv. ráðherra Framsóknarflokksins við það.

Áður en við erum komin til botns í því sem þegar hefur illu heilli verið samþykkt á Alþingi, markaðsvæðing raforkugeirans, áður en við erum komin til botns í því hvernig við eigum að framkvæma það er dengt inn öðru frumvarpi um hvernig við förum að því að skattleggja þessi orkufyrirtæki, þessi almannaþjónustufyrirtæki sem þjóðin á og samfélagið á.

Hver á að borga skattana þegar þeir verða lagðir á? Auðvitað engir aðrir en neytendurnir. Og hver mun borga hæstan hlut í þeim sköttum? Auðvitað þeir neytendur sem nú eru látnir greiða hlutfallslega hæst verð fyrir raforkuna, íbúar hinna dreifðu byggða. Þeir munu líka greiða hæstan hlut í þeirri skattheimtu sem krafist er að orkufyrirtækin taki upp.

Sá níðingsskapur sem nú á sér stað í markaðsvæðingu raforkugeirans og hvernig hann kemur sérstaklega hart niður á íbúum hinna dreifðu byggða virðist engin takmörk eiga.

Ég tel t.d. að fara ætti mjög vandlega ofan í það hvernig sá höfuðstóll er myndaður sem á að fara að láta greiða skatta af, á að fara að fyrna. Hvernig er höfuðstóll orkufyrirtækjanna myndaður? Hvernig er höfuðstóllinn Rarik myndaður, virkjanir, flutningskerfi, veitur og mannvirki, hvernig hefur þessi eign orðið til? Hver greiddi fyrir hana? Það vorum við, almennir neytendur í landinu sem greiddum fjárfestinguna, við erum búin að borga þá fjárfestingu. Við greiddum hana í gegnum not okkar. Þjóðin á þetta og á nú þjóðin aftur að fara að greiða skatt af þeim eignum sem hún hefur þegar greitt upp og telur sig eiga, á hún að fara að borga skatta af slíkum eignum, eignum sem stefnt er að því að selja? Hæstv. iðnaðarráðherra lýsti því yfir í ræðu í síðustu viku að markmiðið væri að koma því svo fyrir að hægt væri að selja orkufyrirtækin til einkaaðila til að geta stundað arðbæran atvinnurekstur á orkufyrirtækjunum.

Ég tel, herra forseti, að draga eigi frumvarpið um skattskyldu orkufyrirtækja til baka, það eigi að stinga því undir stól, það eigi að ljúka því máli um hvernig við framkvæmum, leiðréttum og reynum að bæta þau vitlausu raforkulög sem voru samþykkt á hv. Alþingi og við stöndum frammi fyrir að vita ekki hvernig við ætlum að framkvæma. Við skulum ljúka þeim leik, við skulum bæta fyrir misgjörðir okkar þar en fara ekki að keyra ofan í sama farið með því að skattleggja þá vitleysu sem enn er óunnin og óafgreidd á Alþingi er lýtur að framkvæmd raforkulaganna. Frestum því að ræða um að leggja skatta á orkufyrirtækin sem getur ekki leitt til annars en hækkaðs raforkuverðs.

Það er ágætt að hæstv. iðnaðarráðherra er kominn í salinn. Hæstv. iðnaðarráðherra gæti sagt til um hvað meint er með því að koma til móts við þá sem nú lenda hvað harðast í hækkun á verði rafmagns. Þykir hæstv. iðnaðarráðherra tilhlýðilegt að koma með skattafrumvarp nú, um hvernig eigi að skattleggja orkufyrirtækin, sem hún segist enn vera í vandræðum með? Hún segir að orkufyrirtækin noti tækifærið í ljósi nýrra laga til að skaffa sér auknar tekjur með gjaldskrám, séu að fiska í gruggugu vatni eða noti sér þokukennt andrúmsloft í rafmagnsmálum — þetta eru reyndar mín orð — og hækki orkuverðið. Er ekki rétt að ganga frá þeim málum áður en farið er að leggja skatta á þessi fyrirtæki, sem almenningur verður líka að borga?

Mér finnst hæstv. iðnaðarráðherra skulda okkur allmargar skýringar. Ég vildi gjarnan heyra sjónarmið iðnaðarráðherra. Telur hún þetta frumvarp um skattskyldu orkufyrirtækja tímabært eða eigum við að dengja hverri vitleysunni ofan á aðra? Það virðist háttalag hæstv. ráðherra.

Ég vona að hæstv. iðnaðarráðherra svari fyrir það sem er að gerast í orkumálum. Hvað er að gerast í því að bæta hag þeirra sem nú lenda hvað harðast í markaðsvæðingu raforkunnar. Það er of klént að segja bara að komið verði til móts við þá. Það á að eyða muninum sem virðist ætla að verða milli íbúa hinna dreifðu byggða og þéttbýlisins vegna nýrra raforkulaga. Ég vil fá að heyra slíka yfirlýsingu frá hæstv. iðnaðarráðherra en ekki eitthvert kattarklór um að að einhverju leyti verði komið til móts við hækkunina, svona til að hrækja í sárið eins og ég sagði áðan.

Herra forseti. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt. Það eru svo mörg óljós atriði í þessu frumvarpi um skattskyldu orkufyrirtækja að það er fullkomlega ótímabært að taka málið á dagskrá.

Ég hef minnst á fyrninguna. Hvaða eignir á að fyrna? Hvernig hafa þessar almenningseignir verið metnar hingað til, sem allt í einu á að reikna til verðs, fyrna og láta almenning aftur greiða fyrir skatt af?

Ég legg til að við reynum að ljúka þeim leik sem hafinn var með setningu nýrra raforkulaga og reynum að sjá til að jöfnuður ríki í landinu hvað varðar aðgengi að slíkri almannaþjónustu. Við skulum fresta því að ræða um skattlagningu á þessi fyrirtæki. Hægjum aðeins á í einkavæðingarfasanum.

Verum minnug þess að meginhluti Evrópuríkjanna, sem áttu að hafa innleitt sömu tilskipun og við höfum verið að fjalla um í raforkumálum, hefur alls ekkert gert það enn. Þau búa þó við aðrar aðstæður og hentugri að því leyti. Við, eylandið, af hverju eigum við hér að ganga á undan öllum öðrum í vitleysunni með því að ímynda okkur að raforkumarkaður á Íslandi geti orðið arðsamur samkeppnisrekstur, sú grunnalmannaþjónusta. Það hefur ekki einu sinni tekist í Evrópu?

Herra forseti. Þetta frumvarp um að leggja skatta á orkufyrirtækin er ótímabært. Ég legg til að verði því vísað til nefndar þá verði það svæft þar.