131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[15:23]

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Í umfjöllun um málið hafa stór orð verið látin falla um að með þeirri breytingu sem lögð er til sé verið að ganga á mannréttindi tiltekinna einstaklinga í þjóðfélaginu.

Ég lít þannig á að svo sé ekki, því við skulum skoða hvaða meginsjónarmið búa að baki hugmyndum um að veita gjafsóknir í málarekstri. Þær snúa að því að tryggja að fólk sem hefur lítið fé á milli handanna eigi rétt og kost á því að sækja rétt sinn fyrir dómstólum telji það að á honum sé brotið, burt séð frá efnahag. Það frumvarp sem nú er til umræðu breytir engu um þá meginreglu. Það tryggir eftir sem áður að hinir efnaminni geti leitað réttar síns telji þeir að á honum sé brotið og geti treyst því að ríkisvaldið, við skattgreiðendur berum þann kostnað sem til fellur vegna þeirra mála sem höfðuð eru að uppfylltum þeim skilyrðum að þeir tilteknu einstaklingar hafi tekjur undir ákveðnu lágmarki.

Ég hefði haldið að stjórnarandstöðuþingmenn sem gagnrýna þetta mál hefðu frekar beint sjónum sínum að þeim fjárhæðum sem miðað er við að séu skilyrði gjafsóknar, en ekki það atriði sem hér hefur fyrst og fremst verið til umfjöllunar, þ.e. að í lögunum séu heimildir fyrir einstaklinga sem hugsanlega eru fjárhagslega vel sterkir til að höfða mál á kostnað ríkisins til þess að ná fram þeim réttindum sem þeir telja að á sér sé brotið.

Það er algjört lykilatriði í umræðunni og verður að vera útgangspunkturinn að eftir breytinguna standa hinir efnaminni jafnsterkum stoðum gagnvart rétti sínum og þeim möguleika á að leita réttar síns fyrir dómstólum og áður. Það er ekki verið að skerða rétt hinna efnaminni til þess að höfða skaðabótamál, hvort sem það er gegn ríkinu eða öðrum aðilum, hafi þeir orðið fyrir tjóni. Það er ekki verið að skerða rétt þeirra sem telja að á rétti sínum sé brotið vegna þess að stjórnvöld hagi málum sínum, t.d. í umhverfismálum — sem ég veit að eru hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur mjög hugleikin — fyrir dómstólum.

Við gerum það að skilyrði að gjafsókn sé einungis veitt þeim sem hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til að reka mál sín sjálfir og þetta er algert lykilatriði. Ég tel að umræðan hafi verið á töluverðum villigötum, bæði í þingsal og sömuleiðis í allsherjarnefnd þar sem gefið hefur verið í skyn að verið sé að brjóta mannréttindi á þessum hópum. Svo er ekki. Við vitum að fulltrúar bæði dómsmálaráðuneytisins og nefndarmenn gjafsóknanefndar sem veita gjafsóknir, að undangengnum beiðnum þar um, hafa upplýst okkur um að langflestar gjafsóknir sem veittar eru séu veittar til þeirra efnaminni.

Ef ég man rétt er í kringum 85% af þeim gjafsóknum sem veittar eru veittar vegna þess að umsækjendur eru og teljast ekki vera fjárhagslega í stakk búnir til þess að leita réttar síns fyrir dómstólum. Ég ítreka enn og aftur að á rétti þessa fólks er ekki brotið og er hann er ekki skertur með því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar.

Ég vildi, herra forseti, í þessari ræðu ítreka þetta meginsjónarmið í tengslum við málið og ég vil að sama skapi benda á og ítreka það sem ég sagði í upphafi, að þegar menn fjalla um gjafsókn verða þeir að huga að þeim grundvallarsjónarmiðum sem liggja þar að baki, þ.e. að tryggja að hinir efnaminni geti leitað réttar síns þrátt fyrir að vera ekki í stakk búnir undir það fjárhagslega þannig að ríkisvaldið og skattgreiðendur beri kostnaðinn sem af slíkri málssókn hlýst.

Herra forseti. Réttur hinna efnaminni til að leita réttar síns er ekki fyrir borð borinn með frumvarpinu. Hann er eftir sem áður jafnsterkur, en ég ítreka að við þurfum að hafa í huga og fylgjast náttúrlega með því hvort rétt sé í framtíðinni með hliðsjón af þeim breytingum sem eiga sér stað í efnahagslífinu, kaupmætti og öðru að hafa þær fjárhæðir sem lagðar eru til grundvallar við veitingu gjafsóknar til sífelldrar endurskoðunar. Ég veit að stjórnvöld eru tilbúin til þess að fylgjast með þeirri þróun í framtíðinni.