133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

rammaáætlun um náttúruvernd.

18. mál
[17:35]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu þingmál Samfylkingarinnar sem flutt er í framhaldi af stefnu okkar í umhverfismálum, Fagra Ísland, sem hefur verið gefin út í glæsilegum bæklingi. Undir heitinu Fagra Ísland eru tillögur Samfylkingarinnar um að styrkja stöðu náttúru- og umhverfisverndar á Íslandi. Í inngangi að þessum bæklingi segir:

„Jafnaðarmenn telja að náttúra Íslands sé sameign þjóðarinnar sem hverri kynslóð hafi verið fengin til skynsamlegrar nýtingar. Okkur sem nú lifum er skylt að afhenda næstu kynslóðum náttúru landsins jafnverðmæta og við fengum hana í hendur. Jafnframt berum við Íslendingar ábyrgð á sérstökum náttúruverðmætum landsins gagnvart öllu mannkyni.“

Þetta er grundvallarstefið í stefnu okkar í Fagra Íslandi. Við leggjum til, eins og félagar mínir sem hafa talað á undan mér hafa sagt, að farið verði í að rannsaka landið, kortleggja verðmæt svæði og tryggja verndun þeirra. Eftir þá vinnu yrði hægt að ráðast í framkvæmdir utan þeirra svæða.

Við höfum í tillögum okkar þegar tiltekið ákveðin svæði sem við viljum tryggja friðun á. Þau eru Skjálfandafljót, jökulárnar í Skagafirði, Torfajökulssvæðið, Kerlingarfjöll, Brennisteinsfjöll og Grændalur.

Auk þess höfum við lagt til, sem kom fram í umræðunni um Vatnajökulsþjóðgarð, þingmáli umhverfisráðherra sem nú er til umfjöllunar í umhverfisnefnd þar sem ég á sæti, að Vatnajökulsþjóðgarður verði stækkaður enn frekar og feli m.a. í sér Langasjó og einnig vatnasvið Jökulsár á Fjöllum.

Mig langar að gera annað atriði að umtalsefni sem einnig heyrir undir stefnu okkar, þ.e. það sem snýr að losun gróðurhúsalofttegunda. Eins og menn hafa tekið eftir sem hafa fylgst með umræðunni um umhverfismál á undanförnum dögum, vikum og mánuðum þá er eitt stærsta umhverfismálið í dag losun gróðurhúsalofttegunda og áhrifin af þeim á heiminn í heild, m.a. á veðurfarið. Á fundum Norðurlandaráðs í síðustu viku var einmitt fjallað um þessi mál. Þar hélt erindi Bogi Hansen sem fékk umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs á Norðurlandaráðsþinginu í haust. Hann er færeyskur prófessor sem hefur rannsakað áhrif loftslagsbreytinga á heiminn og einnig áhrif þeirra á Norðurlöndin. Bogi sagði á þessum fundum að við yrðum öll að grípa til okkar ráða. Allir bera ábyrgð, sérstaklega við sem lifum í ríkari hluta veraldarinnar.

Við á Íslandi munum ekki sleppa við áhrifin þótt við séum með hreinustu orkuna í húsahitun og rafmagnsframleiðslu. Þetta mun bitna á okkur eins og öðrum. Við verðum auðvitað að leggja eitthvað af mörkum og á því er tekið í tillögum okkar, hvernig við getum lagt okkar af mörkum. Hvað getum við gert til að minnka áhrifin sem sífellt hlýnandi loftslag hefur á líf okkar og veðurfar í heiminum? Ég var svo heppin að fá að sitja eina kvöldstund og ræða þessi mál við Boga Hansen og hann sagði að ef hann ætti að gefa okkur ráð þá ættum við að lækka alla skatta á tvinnbifreiðar, sem nota rafmagn og bensín, það hefði mest áhrif. Það er í raun í sama anda eins og ungliðarnir á Norðurlandaráðsþinginu lögðu til. Þeir sögðu að orkusparnaður væri áhrifaríkastur gegn loftslagsbreytingum. Þessar bifreiðar sem Boga var tíðrætt um eyða helmingi minna af bensíni en aðrar bifreiðar og útblástur minnkar til muna.

Hann talaði einnig um fiskiskipaflotann. Það kemur einnig fram í okkar tillögum. Til eru ýmsar leiðir til þess að minnka útblástur í íslensku atvinnulífi. Þar vil ég nefna fyrirtækið Marorku sem hefur með nýsköpun og mikilli vinnu útbúið sparnaðarkerfi fyrir skip. Þeir selja þann búnað víða í heiminum í skipaflota ýmissa þjóða, t.d. Kanadamanna. Við ættum að fara þá leið. Þetta gæti dregið verulega úr útblæstri Íslendinga ef við tækjum slíkt upp í skipaflota okkar. En það stendur einmitt til að slíkt sparnaðarkerfi frá Marorku verði í nýja landhelgisskipinu sem verið er að útbúa fyrir okkur.

Þetta eru dæmi um það sem við höfum rætt um varðandi útblástur og ábyrgð okkar á honum. Auðvitað mun það hafa áhrif á Íslandi ef ekki verður dregið úr þessum áhrifum. Sjávarborð mun hækka og veðrabrigði aukast. Bogi benti á það í fyrirlestri sínum í síðustu viku að búast mætti við því að með auknum þurrkum, m.a. í Afríku og víðar í heiminum, þá færu af stað miklir þjóðflutningar. Fólk af heitu svæðunum mun koma í stríðum straumum norður á bóginn þar sem er bærilegra að draga fram lífið. Hann sagði að ef ekki yrði gripið til einhverra ráða þá færu af stað mestu flutningar fólks milli svæða sem nokkurn tíma hefðu átt sér stað í heiminum.

Ég vildi nefna þetta í tengslum við umræðuna um Fagra Ísland. Hluti af þeim aðgerðum sem við verðum að grípa til er skattlagning á eldsneyti. Hvernig við skattleggjum sparneytnar bifreiðar og svo framvegis.