Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 66. fundur,  21. feb. 2023.

framkvæmd EES-samningsins.

595. mál
[15:51]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið og jú, við getum verið sammála að mörgu leyti. En það er eitt sem ég get ekki verið sammála og það er í sambandi við þessa mengunarskatta og annað. Það breytir engu þótt að við séum að fanga koltvísýring til að koma honum niður í jörðina, þessari mengun frá Evrópu, það segir sig sjálft að einhver þarf að borga þetta. Við höfum lært það af reynslunni að þeir sem þurfa að borga mest og þetta bitnar mest á er yfirleitt fátækasta fólkið. Þetta fer niður alla keðjuna. Ef við myndum virkilega vilja sjá til þess að þeir borguðu sem menguðu mest þá myndum við sjá til þess að það væru þeir sem eru efnaðir, vegna þess að þeir eru að ferðast mest, það eru þeir sem hafa efni á því að borga fyrir þetta. En því miður, eins og við rekumst alltaf á, og ég rakst á þetta þegar ég fór í þessa heimsókn til Brussel, er alveg sama hvar mann ber niður í reglugerðum og öðru, það endar alltaf á því að það bitnar á verst setta fólkinu eða það er settur út einhver kostnaður í þjóðfélagið. Og því miður var og er uppi skelfileg staða fyrir fátækt fólk í Evrópu. Hún er kannski ívið skárri hér en ekki mikið vegna þess að munurinn liggur í því að það er mikið af fólki sem er húsnæðislaust í Evrópu. Það er ekki auðvelt að vera húsnæðislaus á Íslandi en því miður er það að gerast. Við verðum að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að ef við erum að innleiða reglugerðir eða taka eitthvað upp í sambandi við mengun og annað að það bitni aldrei á þeim sem hafa það verst hérna því að þeir geta ekki tekið við meiri byrðum.