154. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2024.

mótun heildstæðrar stefnu um áfengis- og vímuefnavarnir.

30. mál
[16:25]
Horfa

Flm. (Sigmar Guðmundsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir þetta innlegg. Mér fannst þetta afbragðsgott innlegg inn í þessa umræðu. Ég ætlaði reyndar að nefna það í ræðu minni, af því að ég hef sjálfur lagt áherslu á það og ég veit að það gera fleiri, að þetta mál er auðvitað ekki nein flokkapólitík. Þegar við erum að tala um svona alvarlega hluti þá held ég að við séum öll svolítið sameinuð í því markmiði að gera betur og megum ekki, finnst mér, missa þetta í einhverjar flokkspólitískar skotgrafir sem hefur reyndar ekki verið reyndin hér í þessum sal þegar kemur að þessum málaflokki. Ég hef ekki lesið þessa skýrslu sem hv. þingmaður nefnir en þarna er komið inn á nokkra þætti sem eru auðvitað mjög þess verðugir að þeir verði með í þeirri vinnu sem felst í því að búa til svona stefnu. Ég hef alls konar skoðanir á sumu af því sem hv. þingmaður nefnir, t.d. verðlagningu, aðgengi og öðru í þeim dúr. Að sjálfsögðu er hægt að færa rök fyrir því að þetta allt saman skipti máli. Það sem ég hef verið að reyna að gera í þessari umræðu er að beina sjónum mínum að allra veikasta hópnum sem er það fólk sem er með þennan sjúkdóm og er í virkri neyslu eða drykkju. Ég held t.d. að verðlagning eða aðgengi eða eitthvað slíkt hafi engin áhrif á þennan hóp. Veikur alkóhólisti og veikur fíkill skríður á milli sveitarfélaga til að sækja sér vín eða dóp ef hann þarf. En það sem hv. þingmaður nefnir getur hins vegar verið eitthvað sem við þurfum að taka umræðu um þegar kemur að ákveðnum forvarnaþætti eða þess háttar. Ég hef alltaf haft ákveðnar efasemdir um að t.d. mikil verðstýring hafi áhrif á þennan alvarlegasta hluta vandans sem ég er að nefna, bara út frá þessu sem ég tiltók, að þeir sem eru veikir sækja sinn vímugjafa hvað svo sem hann kostar. (Forseti hringir.) En allt þetta sem nefnt var hér af hálfu hv. þingmanns er eitthvað sem við þurfum mögulega að taka inn í stefnuvinnuna (Forseti hringir.) og kannski ekki síst það sem snýr að forvarnaþættinum.