132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Viðhald vega.

488. mál
[15:08]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þessa fyrirspurn frá hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur. Þetta leiðir auðvitað hugann að því, eins og kom fram í svari hæstv. samgönguráðherra, að þjóðvegirnir okkar eru alls ekki byggðir fyrir alla þessa þungaflutninga. Það hefur komið fram að hver flutningabíll með tengivagni slítur vegunum á við 10 þúsund fólksbíla. Það sem hefur verið að gerast á síðustu árum er einmitt að flutningar hafa verið að færast að miklu leyti frá strandsiglingum og upp á vegina og það er þarna sem við verðum að bregðast við.

Það ætti ekki að vera erfitt að reikna þjóðhagslega hagkvæmni af því að vera með strandsiglingar og nú geta menn farið að sjá eftir að hafa lagt niður Skipaútgerð ríkisins. Þess vegna ættu menn að einbeita sér að því að byggja upp strandflutninga á ný, hvernig sem það verður gert en það eru auðvitað margar leiðir (Forseti hringir.) til þess, og spara þannig peninga og (Forseti hringir.) spara vegina okkar.

(Forseti (DrH): Ég bið hv. þingmann að virða ræðutíma.)