133. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2007.

málefni Frjálslynda flokksins.

[11:59]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég sé ástæðu til að koma hér upp undir liðnum um störf þingsins og ræða nokkuð um málefni Frjálslynda flokksins. (GÓJ: Er vanþörf á því?) Það er ekki vanþörf á því, hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson, enda tók hv. þingmaður málið upp fyrir rúmri viku í hv. þingi.

Stjórnmálaflokkar reyna auðvitað að koma fram stefnumálum sínum og færa rök fyrir sínu máli, m.a. á Alþingi, en stundum ber það við að sérstaklega er tekist á í umræðum um stefnumál sem snúa að flokkum úti í bæ og það gerði hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir á Ríkisútvarpinu í sérstökum pistli sem hún tileinkaði svo til algjörlega Frjálslynda flokknum. Það sem ég hef við það að athuga, hæstv. forseti, er að þar finnst mér hallað réttu máli. Með tilliti til þess að hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson tók þessi mál upp fyrir viku á Alþingi og ég ræddi þau að sjálfsögðu þá við hv. þingmann í þingsal finnst mér ástæða til að vekja á því athygli að hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir viðhefur í þættinum þau ummæli, með leyfi forseta, að Frjálslyndi flokkurinn sé jafnvel að flagga „stefnu mannfyrirlitningar og haturs“ og hún lætur að því liggja að boðskapur sá sem ég flutti í ræðu á landsfundi hafi verið það ógeðfelldur að það sé ekki einu sinni hægt að vitna í hann. Ég er hér með ræðuna mína, (Forseti hringir.) hæstv. forseti, og get gefið hv. þingmanni afrit af þessum kafla sem hún sagðist sérstaklega hafa áhyggjur af (Forseti hringir.) en ég vænti þess að meiri heiðarleika gæti í málflutningi hennar framvegis.