143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Fyrir helgi var dreift tillögu utan þingfundar. Þá fá menn senda tilkynningu í símann sinn um að fram hafi komið þingskjal. Mér heyrist á nokkrum þingmönnum hér að þeir séu að biðja um að fá slíkar tilkynningar sér, en það er gert ráð fyrir því að hægt sé að dreifa þingskjölum utan þingfundar. Það er ekkert óeðlilegt á ferðinni, í fyrsta lagi.

Í öðru lagi, þegar sótt var um aðild að Evrópusambandinu kom fram tillaga um það á Alþingi 25. maí. Síðan leið einn, tveir, þrír sólarhringar, þá var málið komið á dagskrá þingsins. (Gripið fram í.)28. maí hófst umræða um aðildarumsókn að Evrópusambandinu og þeir sem hafa staðið hér í dag með digurbarkalegar yfirlýsingar um að það sé ósvinna að fara ekki beint í þjóðaratkvæðagreiðslu eru flestir þeir sömu og greiddu þá atkvæði gegn því að leita til þjóðarinnar. (Gripið fram í.) Það eru þeir sem greiddu atkvæði gegn því (Gripið fram í.) sem hafa komið hingað upp. (Forseti hringir.)

Við eigum eftir að taka umræðu um þetta mál í þinginu ef það kemst á dagskrá, (Forseti hringir.) ef stjórnarandstaðan þorir að hleypa málinu á dagskrá til (Forseti hringir.) að taka hina efnislegu umræðu um það. Það á eftir að koma í ljós. Það er fyrst og fremst verið að reyna að þvælast fyrir því (Forseti hringir.) að Evrópusambandsumræðan verði tekin hér í þingsal þar sem hún á heima.