145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:03]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegi forseti. Nú virðist 1. umr. um þetta frumvarp vera að ljúka. Umræðan hefur tekið um 20 klukkutíma sem var ekki það sem að var stefnt þar sem málið fékk svipaða umfjöllun á síðasta þingi. Frumvarpið er lagt nánast óbreytt fram fyrir utan að aðeins hefur verið hert á kröfu um að allir sýni skilríki, það gert kleift að endurskoða kerfið á fyrsta starfstíma þess og annað slíkt. Þetta eru breytingarnar sem gerðar voru á milli ára, annars er frumvarpið óbreytt. Eins og ég sagði hefur frumvarpið fengið mikla og ég segi góða umfjöllun. Það hefur margt skýrst í málinu fyrir almenningi og þingmönnum og það er núna á hreinu og staðfest að engin hætta er á ferð.

Það skiptir miklu máli að fara aðeins yfir það hvernig frumvarpið er eftir þessa umræðu, af því það hefur mikið verið rætt um að þetta snúist eingöngu um að koma áfengi í matvörubúðir og auka aðgengi að áfengi. Frumvarpið snýst hins vegar ekkert um það og var það aldrei markmiðið með því. Það er ekki keppikefli að áfengi verði til sölu í matvörubúðum og verði sýnilegt þar. Ég vona að svo verði ekki heldur að það verði aðskilið frá annarri vöru eins og hægt er í verslununum, sem ég býst við að verði gert og þannig er reynslan annars staðar þar sem þetta er við lýði, alla vega á flestum stöðum.

Við samningu frumvarpsins var augljóslega farið eftir leiðbeiningum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar um að ríkið ætti að hafa kontról á því hvernig salan færi fram, hafa skýran regluramma um það og hafa þannig stjórn á sölunni, en þar er ekki lögð áhersla á að ríkið eigi sjálft verslunina sem selur vöruna. Það fyrirkomulag er enn þá við lýði. Við erum aðeins að breyta einum hlut sem er hver hefur heimild til þess að selja vöruna, en ekki hvernig hún er seld. Enn þá er skýr krafa um lengd opnunartíma og auglýsingar, um aldur til kaupa og starfsfólkið, þær reglur eru meira að segja hertar, refsingar við brotum á þessu eru skýrðar og ríkisvaldið hefur enn þá fulla stjórn á álagningu áfengisgjaldsins, sem ég tel að hafi mestu áhrifin á sölutölur á áfengi, þ.e. efnahagur þjóðarinnar og verðið á áfenginu. Við mættum hugsa um það núna þegar efnahagur þjóðarinnar er að bætast hvort áfengisneyslan muni þá aukast úr hófi fram. Svo er líka viss mismunun, þannig tengist þetta kannski verslunarfrelsinu sem hefur verið talað um, því að það virðast allir mega versla með þessa löglegu vöru án þess þó að verslunin í landinu megi gera það, bara allir aðrir.

Það er líka þannig að þeir sem reka einhvers konar verslun geta ekki pantað áfengisverslun ríkisins við hliðina á sér, sem hefur áhrif á aðsókn í þeirra verslun sem selur annað og margt svona. Þarna erum við að tala um hagsmuni sveitarfélaga og annað slíkt. En fyrst og fremst snýst þetta mál í mínum huga um það að vera einlægur í því að forgangsraða verkefnum fyrir ríkið, í hvað það notar krafta sína við að gera betur í að stýra samfélaginu og hvar það notar fjármuni sína.

Í fyrri ræðu var rætt um heilbrigðiskerfið og undirskriftasöfnunina þar. Mér finnst því gott að taka þessa umræðu af því í þessu máli erum við að tala um að nýta fjármunina í það í staðinn fyrir að hafa óhagkvæmar áfengisverslanir um allt land, niðurgreiddar með hagnaði af tóbakssölu. Ég vil frekar nýta fjármunina sem ríkið er með bundið í því, þeirri sóun sem er í gangi þar, í að styrkja heilbrigðiskerfið og þá sérstaklega í kringum áfengismál. Það hefur enginn haldið því fram í þessum ræðustól, hvorki meðflutningsmenn frumvarpsins, stuðningsmenn þess né andstæðingar, að áfengi sé venjuleg vara sem valdi ekki skaða. Það eru allir sammála um að hún geri það. En við verðum þá að taka á því og einbeita okkur að því en halda ekki að lög og reglur sem segja fólki hvernig það á að hegða sér leysi þann vanda. Það er ekki það sem býr að baki.

Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan að frumvarpið snýst ekki um að auka aðgengi að áfengi. Það snýst ekki um að matvöruverslanir eigi að selja það, þótt þeim verði það vissulega heimilt verði frumvarpið að lögum, en þetta snýst ekki um að þær eigi að gera það.

Vegna þess að hv. þingmenn gera það oft að umtalsefni hvað þetta mál hefur tekið mikinn tíma og tafið önnur mál og hvað það hefur haft mikinn forgang þá legg ég til að þetta mikið rædda mál, bæði í þjóðfélaginu og í þingsalnum, gangi núna til allsherjar- og menntamálanefndar til þess að hún geti tekist á við það og það fái þinglega meðferð, fari í lýðræðislegt ferli og þingmenn fái að taka ákvörðun um það hvort málið nái fram að ganga eða ekki. Þá þarf það ekki að tefja önnur mál hér neitt frekar. Ég tel að það hafi margkomið fram. Það komu hátt í 70 umsagnir um málið á síðast þingi. Það var rætt við flesta umsagnaraðila fyrir allsherjar- og menntamálanefnd. Málið kemur nánast óbreytt hingað inn. Það fær aftur 20 klukkutíma umræðu og hefur fengið mikla samfélagslega umræðu. Ég tel málið við það að vera tilbúið til að fara fyrir þingheim svo hann geti tekið ákvörðun um það hvort hann vilji að það nái fram að ganga eða ekki.

Ég árétta að breytingin er ekki mikil. Það er verið að breyta því hver fær að selja áfengið en öll umgjörðin er enn þá í höndum ríkisins og ekki sjálfgefið að aðgengið muni breytast. Á næsta ári mun sölufyrirkomulagið á áfengi örugglega breytast mikið og fara meira yfir í sérvöruverslanir og á internetið, það mun aukast. Við höfum séð það að þrátt fyrir að heildarsala á áfengi á Íslandi aukist og vínbúðunum hjá ríkinu fjölgi dregst salan saman, það sem selt er í gegnum ÁTVR. Ef fram heldur sem horfir verðum við búin að byggja upp mjög dýrt verslunarnet á vegum ríkisins sem verður alltaf minni og minni aðsókn í. Fólk er að breyta neysluvenjum sínum, það kaupir sér kannski síður áfengi til þess að eiga heima og nýtur þess frekar þegar það fer út að borða, því að vínveitingastöðum hefur fjölgað. Ferðamennirnir nota þá staði líka. Vínklúbbum og bjórklúbbum hefur fjölgað mikið, sem panta áfengið inn saman og sumir framleiða jafnvel áfengi í litlum mæli sjálfir. Svo hefur netverslun yfir hafið stóraukist og einstaklingar eru farnir að panta vöruna beint af netinu. Það getur því vel verið að íslenska ríkið sitji allt í einu uppi með tómar verslanir og fjármunirnir nýtast ekki heilbrigðiskerfinu á meðan.

Meðan þessi umræða hefur farið fram í þinginu hef ég sótt íbúafundi, til að mynda á Hvolsvelli Þar er kvartað yfir opinberri stofnun, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, sem breytir opnunartíma á heilsugæslu og er með opið þrjá daga í staðinn fyrir fimm. Á sama tíma er áfengisverslun opin fimm til sex daga vikunnar í sama plássi. Hvort tveggja er rekið af ríkinu. Við þurfum að einbeita okkur að því hvernig umhverfið er, hverju verið er að breyta. Við skulum ekki tapa okkur í umræðunni með tilfinningum og alhæfingum þegar staðreyndirnar eru aðrar. Ég bendi fólki á að kynna sér nýjustu útgáfu landlæknisembættisins sem heitir Talnabrunnur. Þar má sjá hvernig áfengisneysla dróst hér saman með verri efnahag, fór úr 7,5 lítrum á mann niður í 6,9, og hefur risið aftur í 7,2. Inn í þetta spilar alltaf ákveðinn mælingavandi því að þegar verið er að tala um aukna neyslu áfengis er ekki gert ráð fyrir því í tölunum hvað ferðamönnum hefur fjölgað mikið. Þeir drekka örugglega hlutfallslega meira af því að þeir sækja mikið vínveitingahús, sem hefur fjölgað töluvert. Svo hefur náttúrlega líka orðið breyting á vínmenningunni. Margir hafa sagt frá því að þegar bjórinn var leyfður gjörbreyttist neyslumynstur áfengis, það fór úr túradrykkju yfir í eðlilegri vínmenningu, vilja margir halda fram. Það má ræða þetta fram og aftur.

Ég þakka fyrir þá umræðu og athygli sem frumvarpið hefur fengið. Ég þarf ekki að hafa það á samviskunni að málið fari ógrundað eða óskoðað í gegnum þingið. Ég skora á þingheim að hleypa málinu í atkvæðagreiðslu og sýna að þingmenn séu tilbúnir til að taka lýðræðislega ákvörðun með eða á móti frumvarpinu. Ég hlakka til að takast á við það í allsherjar- og menntamálanefnd.