154. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2024.

Seðlabanki Íslands.

662. mál
[18:06]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir framsöguna og svör við andsvörum mínum hér áðan. Þetta samstarf við fjármálafyrirtækin er vissulega mjög mikilvægt en það er mjög mikilvægt að Seðlabankinn setji reglur um það að ef það kemur smágreiðslumiðlunarfyrirtæki sé tryggt að fjármálafyrirtækin komi ekki í veg fyrir það að kúnnarnir, viðskiptamennirnir, geti gefið samþykki til þessara fyrirtækja sem eru ekki hluti af bankakerfinu, að tæknifyrirtæki sem ætla að fara í smágreiðslumiðlun lendi ekki á þröskuldi í samskiptum þeirra við bankana. Þar stendur hnífurinn í kúnni, tel ég, varðandi greiðsluþjónustutilskipunina PSD2. Það er gríðarlega mikilvægt að bankinn geti ekki hamlað því að viðskiptamaðurinn velji þá smágreiðslumiðlun sem hann vill, sem hann kýs. Það er aðalatriðið. Ég vara við því að samstarf ríkisins við bankana verði þannig að þetta verði allt í höndum bankanna og ef þeir ráði þessu ekki geti þeir sett upp tæknilegar hindranir fyrir önnur fyrirtæki að koma inn á þennan markað sem lýtur að smágreiðslumiðlun. Það eru gríðarleg tækifæri þegar mörg fyrirtæki eru í samkeppni um smá greiðslumiðlun og það er mikill peningur þar. Þessir fjármunir sem eru að fara út úr landi þegar 90% af öllum smágreiðslum á sölustað eða hjá þjónustuveitenda fara um greiðslukortainnviði alþjóðlegra kortasamsteypa, það er eflaust talað um það hérna í greinargerðinni, þetta eru örugglega tugir milljarða. Það er alltaf tekinn pínulítill peningur í hverri kortafærslu. Ég veit að samningarnir á Íslandi voru þannig upphaflega að kreditkortin voru hagstæðari fyrir kúnnann heldur en debetkort. Við notum meira greiðslukort heldur en debetkort sem er svolítið óhagkvæmt af því að greiðslukortin eru í eðli sínu lánastarfsemi á meðan debetkort eru beint tengd við bankareikning viðskiptamannsins.

Ég tel mjög mikilvægt það sem kemur fram í 2. gr., að í reglunum sé heimilt að mæla fyrir um nauðsynlegar ráðstafanir eins og fyrirkomulag innviða innlendrar greiðslumiðlunar og aðgang að slíkum innviðum. Þetta er raunverulega það sem ég er að tala um, aðganginn að þessum innviðum. Svo er náttúrlega gjald fyrir afnot af innviðunum og mörk á gjaldtöku af hálfu greiðsluþjónustuveitandans. En það er líka þannig að þeir sem eiga þessa teina og þeir sem nota þá — segjum að það væri lest til Keflavíkur og það væri ókeypis að taka lestina, en tekjurnar væru af auglýsingunum og þjónustutilboðunum sem þú fengir á leiðinni. Þar eru gríðarleg tækifæri, t.d. fyrir verslanir sem fengju jafnvel upplýsingar um það, ef viðskiptamaðurinn myndi gefa samþykki fyrir því, fyrir hversu mikið hann keypti í mánuði, t.d. í Bónus, og þá gæti hann fengið afslátt til að tryggja að hann færi áfram í Bónus og svo fengi hann ákveðin tilboð og annað slíkt. Maður þekkir það yfirleitt í öðrum löndum, verslanir gefa t.d. afslátt á ákveðnum vörum, t.d. 50% afslátt af bleium og þá fer barnafólkið í þá verslun og kaupir í matinn í leiðinni að sjálfsögðu. Þessi tilboð eru tengd þessu líka, upplýsingunum sem þarna eru veittar. Verðmætið í upplýsingunum sem bankarnir hafa er náttúrlega notkun viðskiptamannsins, í hvað hann er að eyða. Ef verslunin sem kúnninn er að versla við fengi þessar upplýsingar þá er það gríðarlegt viðskiptatækifæri fyrir hana. Og eins og við öll vitum sennilega þá var fyrir 100 árum olía verðmætasta auðlindin sem til var. Nú eru það upplýsingar, persónuupplýsingar. Við finnum það á hverjum degi þegar við notum Google eða Facebook, fyrirtækin eru að nota þær upplýsingar hjá okkur til að selja auglýsingar, meira að segja er seld staðsetning okkar. Það er það sem er hér undir að vissu leyti.

Mér finnst svolítið að af orðum hæstv. forsætisráðherra mega ráða að við séum ekki enn þá komin alveg að því varðandi eignarhaldið, mér sýnist þetta vera smá millileikur hvað það varðar. Þetta lýtur að þjóðaröryggi og við höfum reynsluna frá hruninu. Þá munaði litlu að þessar alþjóðlegu kortasamsteypur myndu loka á okkur, en sem betur fer tókst það ekki. Mér skilst að það hafi verið með símtölum, gott ef það er ekki fjallað um það í þessari frægu bankahrunsskýrslu. En það er gríðarlega mikilvægt að við höfum okkar eigin innviði þar sem smágreiðslur geta átt sér stað. Ég þekki t.d. DK-kortin í Danmörku, þeir hafa sína eigin innviði, og Norðmenn og Svíar hafa líka sína eigin innviði. Þetta eru kort sem þú getur ekki notað erlendis, DK-kortin getur þú ekki notað erlendis, bara innan lands. Þá verður peningurinn af notkun á þessum kortum eftir innan lands, hann fer ekki til Visa eða Mastercard.

Ég vona að þetta samstarf og þetta samtal eigi sér stað á breiðum grundvelli þar sem verði opnað fyrir samkeppni og að þau fyrirtæki sem hafi áhuga hafi góðan aðgang að þessum markaði.

Það má eiginlega segja að PSD2-tilskipunin hafi komið svolítið eftir efnahagshrunið. Það átti að auka samkeppni á þessum markaði og bankarnir í heiminum voru fyrst eftir hrun allir að fara á taugum yfir því að verða næsta Kodak. Af hverju erum við með banka? Jú, þetta eru eins konar pípulagnir samfélagsins varðandi greiðslur. Núna eru Bandaríkjamenn komnir með svokallaða lánaklúbba, voru á tímabili og eru enn, fólk setur sparifé sitt í lánaklúbb og svo er verið að lána til að ávaxta fé sitt þar. Við getum talið áfram Blockchain og Bitcoin og það allt, það er þetta sem er undir. Tæknin hefur verið að ógna þessu hefðbundna bankakerfi, „network“-ið er að taka yfir, það er ekki „híerarkía“. Við þurfum að fara til lögbókanda til að fá að stimpla kaupsamninga og við förum til bifreiðaskráningar til að skrá eignaskipti. Með þessu þurfum við þess ekki lengur og það er það sama með greiðslumiðlun, við þurfum ekki að fara í gegnum bankana. Það eina sem er eftir er aðgangur viðskiptamannsins, bankareikningseigandans. Ég get gefið samþykki mitt fyrir því að greiðslumiðlunin fái aðgang að bankareikningi mínum en ég ætla að nota aðrar pípulagnir en bankinn býður upp á. Þetta er þessi samkeppni um pípulagnir og hver veitir þá þjónustu til þess að peningarnir streymi út af reikningnum mínum.

Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt mál hér á ferðinni. Ég tel mikilvægt að við hlúum að tækninýjungum og þeim sprotafyrirtækjum sem eru jafnvel að koma inn á þennan markað. Ég veit um eitt a.m.k. Þá er spurningin líka: Hvernig taka bankarnir á móti svona fyrirtækjum? Ætla þeir að gera þeim erfitt fyrir hvað það varðar að tryggja samþykki viðskiptamanna fyrir því að fyrirtækin fái aðgang að bankareikningi þeirra? Um það snýst PSD2, greiðsluþjónustutilskipunin.

Þetta mál fer reyndar ekki til nefndar sem ég sit í en þetta er gríðarlega áhugavert mál og verður spennandi að sjá hvert framhaldið verður og ég efast ekki um að hæstv. forsætisráðherra komi með annað frumvarp, þetta varðar rekstraröryggi, um eignarhaldið. Það er mjög áhugavert. Það verður spennandi að sjá þessar reglur sem hér er verið að gefa Seðlabankanum, eins og hér segir í 2. gr.:

„Seðlabankanum er heimilt í þágu aukins viðnámsþróttar, öryggis og virkni greiðslumiðlunar og að fengnu samþykki fjármálastöðugleikanefndar að setja reglur um rekstraröryggi greiðslumiðlunar.“

Þar er m.a. fjallað um þennan aðgang, gjald og afnot af innviðunum o.s.frv. Ég vil reyndar ítreka það sem ég sé í 2. gr., þar er talað um eignarhald líka. Það virðist vera spurning, mér skildist það áðan, hvort ríkið ætli að eiga svona smágreiðslumiðlun eða ekki. Það virðist ekki vera alveg ákveðið. En ríkið þarf ekki að eiga hana. Það getur tryggt öryggi með öðrum hætti, með reglusetningu eins og hér er verið að gera, reglusetningu og í samstarfi við eigendurna. Þó svo að ríkið reki millibankagreiðslukerfi þá þarf það ekki að eiga smágreiðslumiðlunarkerfi. Það er af því að einstaklingar geta séð um það og fyrirtæki.

Ég ætla ekki hafa þetta lengra en það verður spennandi að sjá hvernig þetta mál afgreiðist í nefnd.