132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Endurgreiðslur öryrkja til Tryggingastofnunar ríkisins.

467. mál
[14:27]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég verð að biðjast velvirðingar á því en það er mjög erfitt að ræða þetta mál til hlítar undir því knappa fyrirspurnaformi sem hér er og verð ég því að stikla á mjög stóru.

Ég vil byrja á því að geta þess að þær reglugerðir sem settar eru verða auðvitað að eiga stoð í lögum. Það leiðir af sjálfu sér. Spurt var hvort ég væri tilbúinn að beita mér fyrir því að endurgreiðslukrafan yrði felld niður frá þeim tíma sem Tryggingastofnun var ljóst að um ofgreiðslu hefði verið að ræða. Ég er ekki tilbúinn að beita mér fyrir því en það er kannski mergurinn málsins að við þurfum að fara yfir þetta kerfi. Ég er að láta gera það, ég hef skipað nefnd sem skilar mér áliti í lok mánaðarins. Þá munum við taka niðurstöðu hennar til skoðunar í ráðuneytinu. Í annarri samráðsnefnd er svo aftur verið að ræða tekjuskerðingar en það er náttúrlega sjálfstæð pólitísk ákvörðun hvað skerðingarnar eru miklar. Ef þær væru minni þá væru upphæðirnar náttúrlega minni. Ég hygg samt að menn hafi talið þetta kerfi vera til bóta, enda er það rétt sem kom fram hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, ég held að þessi löggjöf hafi verið samþykkt samhljóða í hv. Alþingi. Eigi að síður þurfum við að fara yfir þá hnökra sem eru á framkvæmdinni, síðan er það svo sjálfstæð pólitísk ákvörðun hvort minnka á skerðingarnar en menn eru að skoða það mál sérstaklega.