152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[14:46]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Þegar ég reyni sem nýr þingmaður að glöggva mig á hlutverki Ríkisendurskoðunar annars vegar og rannsóknarnefnda hins vegar þá sýnist mér nú að helsta hlutverk samkvæmt 5. gr. laganna sé hjá ríkisendurskoðanda að meta hvort reikningsskilin gefi glögga mynd af rekstri og síðan að kanna innra eftirlit stofnana og fyrirtækja og ganga úr skugga um að reikningar séu í samræmi við heimildir fjárlaga. En þegar maður skoðar síðan rannsóknarnefndir þá stendur í 39. gr. stjórnarskrárinnar að Alþingi sé heimilt að skipa nefndir alþingismanna til að rannsaka mikilvæg mál er almenning varða. Alþingi getur veitt þessum nefndum heimild til að heimta skýrslur, munnlegar, bréflegar, hvort tveggja af embættismönnum eða einstökum mönnum. Ég sé ekki að þessi heimild sé til staðar hjá Ríkisendurskoðun. Það er hægt að láta sækja fólk í yfirheyrslu og láta þá standa fyrir máli sínu hjá rannsóknarnefnd en ekki hjá Ríkisendurskoðun þannig að það er gagnslaust að fara með þetta í gegnum Ríkisendurskoðun.