154. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2024.

Störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég skipti um skoðun um umræðuefni núna rétt í þessu og vona að ég lendi ekki úti í mýri með það sem ég ætla að segja í stað þess sem ég hafði hugsað mér að segja. En mig langar til að taka undir orð hv. þm. Sigþrúðar Ármann hér áðan þar sem hún ræddi um mikilvægi þess að fara vel með skattfé og það með hvaða hætti við göngum fram í rekstri hins opinbera. Mér datt þetta í hug og vil bara hvetja hv. þingmann til að lesa þessa ágætu ræðu upp á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins, þeim næsta sem verður haldinn, því að fyrrverandi þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, Óli Björn Kárason, var með prýðisgóða grein í Morgunblaðinu í morgun þar sem hann m.a. lét vita af því að það væri von á frumvarpi hér inn í þingið sem hann væri fyrsti flutningsmaður að í tengslum við umfang og rekstur Ríkisútvarpsins. Við vini mína í þingflokki Sjálfstæðisflokksins vil ég bara segja: Það eru leiðir færar í núverandi umhverfi til að auka líkurnar á því að þið getið talað fyrir og náð í gegn markmiðum Sjálfstæðisflokksins. Það er auðvitað þannig að hver velur sér næturstað í pólitíska umhverfinu og í augnablikinu er málum háttað þannig að Sjálfstæðsstuðningsmenn, Sjálfstæðisþingmenn jafnvel, kveinka sér mjög undan því hversu erfitt er að ná sínum málum í gegn, stefnu Sjálfstæðisflokksins og þar fram eftir götunum. En það verður að hafa það í huga að á hverjum degi er það val Sjálfstæðisflokksins að vera í ríkisstjórn þar sem liggur fyrir að þessi stefnumál eigi ekki upp á pallborðið. Þannig að ég bara vil hvetja hv. varaþingmann Sigþrúði Ármann til að tala fyrir þessum sjónarmiðum innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins því að við okkur blasir stjórnlaus vöxtur ríkisútgjalda undanfarin ár og kjörtímabil undir stjórn okkar ágætu ráðherra Sjálfstæðisflokksins.