154. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2024.

Fáliðuð lögregla.

[15:58]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda þessa umræðu því hér er um mikilvægt mál að ræða. Það er mjög sérstakt að árið 2007 hafi verið 339 lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu en 16 árum seinna, árið 2023, séu þeir orðnir 297. Það er alveg með ólíkindum að þeim hafi fækkað á þessu tímabili þegar fólksfjölgun hefur verið jafn mikil og raun ber vitni og ekki síður þegar ferðamönnum hefur fjölgað stórkostlega. Ísland var ekki það ferðamannaland árið 2007 sem við erum í dag með 2,2 milljónir ferðamanna. Lögreglan er því allt of fáliðuð og á því verður að taka. Öryggi borgaranna er frumskylda stjórnvalda. Ríkisvaldinu ber skylda til að tryggja öryggi íbúanna, tryggja að þeir búi ekki við ógn, geti verið í friði, njóti friðhelgi einkalífs og að farið sé að réttum lögum í landinu. Það er skylda ríkisvaldsins að sjá til þess að halda uppi lögum í landinu og að þeir sem brjóta lögin séu sóttir til saka og beittir lögmæltum viðurlögum. En þá er það spurningin um getuna til þess. Þegar orðið hefur svona mikil fækkun í lögreglunni og miðað við þær gríðarlegu breytingar sem hafa orðið á síðustu 16 árum má efast um það. Alvarleg brot, skipulögð brotastarfsemi erlendra gengja, ferðaþjónusta o.fl. kallar á eflda löggæslu. Ég vil líka benda á það að á landsbyggðinni þarf að gera átak og má benda á að í Dalabyggð vantar starfsstöð, en þar hefur verið kallað eftir starfsstöð á undanförnum árum. Byggð er þar mikil, mikil umferð og langar vegalengdir. Það er ekki hægt að stórir hlutar landsins séu án löggæslu og lögreglu um langan tíma. Vissulega eru lögreglustöðvar ekki allt, lögreglubílar eru tölvutengdir og það er hægt að afgreiða mál (Forseti hringir.) á staðnum, en það er grundvallaratriði að þeim sé dreift nægjanlega um landið.