133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

alþjóðlegt bann við dauðarefsingum.

533. mál
[12:51]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Hér er hreyft stóru máli. Eins og hv. þingmanni er kunnugt um eru íslensk stjórnvöld fylgjandi afnámi dauðarefsinga og Ísland á aðild að þremur alþjóðasamningum sem kveða á um slíkt. Viðbótarbókun nr. 2 við samninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi svo og viðbótarbókanir nr. 6 og 13 við Mannréttindasáttmála Evrópu.

Í samræmi við þessa stefnu hafa íslensk stjórnvöld til margra ára, ekki síst á vettvangi Sameinuðu þjóðanna en einnig annars staðar á alþjóðavettvangi, talað fyrir afnámi dauðarefsinga og átt aðild að fjölmörgum samþykktum sem kveða á um slíkt bann. Nýr aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á allan stuðning okkar í þeirri baráttu sem hann hefur hafið á þessu sviði.

Sem betur fer hefur talsvert áunnist í baráttunni gegn dauðarefsingum þótt enn sé langt í land. Árið 1997 höfðu einungis 16 ríki afnumið dauðarefsingu en í dag eru þau 88 talsins. 11 ríki til viðbótar hafa afnumið dauðarefsingu nema að um stríðsglæpi sé að ræða og þá hafa 29 ríki til viðbótar haldið dauðarefsingum inni í lögum en ekki viðhaft síðastliðin 10 ár eða lengur. Er talið að í þeim ríkjum hafi slíkar refsingar verið aflagðar. Samanlagt hafa 128 ríki aflagt dauðarefsingu með einum eða öðrum hætti. Ég vil að lokum segja að íslensk stjórnvöld munu áfram tala fyrir afnámi dauðarefsinga á alþjóðavettvangi.