135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[19:14]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég var sammála öllu því sem hv. þingmaður sagði í fyrri ræðu sinni en ég verð að gera ágreining við viðhorfin sem birtust undir miðbik ræðu hans í hinni síðari. Berangrið hefur líka sína fegurð, hrjóstrið hefur líka sína fegurð og sitt gildi. Ég veit ekki alveg hvort það er heppilegt að við ræðum þetta á þeim grundvelli að við ætlum okkur að lagfæra landslagið eins og hv. þingmaður orðaði það með svo hugvitssamlegum hætti.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það sé tvennt sem menn þurfi að huga að varðandi Vestfirði. Það liggur fyrir að Vestfirðir eru ekki sjálfum sér nógir um orku nema að fjórum tíunda hluta þeirrar orku sem þeir nota, hitt er flutt til þeirra. Það gerir það að verkum að ef hinn útsjónarsami þingmaður Vestfirðinga, Guðjón Arnar Kristjánsson, mundi t.d. gera reka að því og lukkan mundi leggja honum lið við að ná þangað einhvers konar atvinnu sem krefðist mikillar orku, við skulum segja yfir 15–20 megavött, þá er ekki hægt að afhenda hana þar, það er svo einfalt mál. Það er líka partur af því ójafnræði sem Vestfirðingar búa við.

Það er tvennt sem þarf að gera til þess að auka afhendingaröryggið og það er í fyrsta lagi að endurbæta flutningskerfið en í öðru lagi er ég þeirrar skoðunar að menn eigi að skoða þá virkjunarmöguleika sem eru nærtækir. Sá sem er allra nærtækastur og kannski auðveldastur er að efla Mjólkárvirkjun. Það mundi leiða til þess, með ákveðnum tæknilegum breytingum, að þegar leiðin á milli Hrútatungu og Mjólkárvirkjunar brestur væri samt hægt að sjá töluverðum hluta Vestfjarða, a.m.k. í nokkurri fjarlægð frá Mjólkárvirkjun, áfram fyrir rafmagni. Það er ekki hægt í dag því að þegar þessi leið á milli Hrútatungu og Mjólkárvirkjun bilar vegna veðurálags, og þarna eru veður válynd og firnindi feikileg sem línan þarf um að fara, þá slær alla Vestfirði út og það er ekki nógu gott og það tekur langan tíma ræsa varaafl og síðan að ná stöðvunum inn aftur.