141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

rannsókn samgönguslysa.

131. mál
[16:47]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og fagna því líka hvernig hann sem nýr formaður í hv. umhverfis- og samgöngunefnd nálgast málið. Ég fagna því mikið.

Mig langar til að benda á það sem kemur fram í meirihlutaálitinu — sem hv. þingmaður stendur ekki að vegna þess að hann átti ekki sæti í nefndinni, svo það sé undirstrikað — þar sem segir: „Hjá fulltrúum núverandi rannsóknarnefnda var það sjónarmið áberandi að sameining nefndanna kunni að koma niður á faglegum þáttum rannsóknanna.“ Það kemur klárlega mjög skýrt fram í þeim umsögnum sem við höfum til umfjöllunar með málinu. Síðan segir líka í niðurstöðu nefndarinnar í nefndaráliti meiri hlutans: „Þá skal undirstrikað að með samþykkt þessa frumvarps verður ekki í neinu hróflað við þeirri faglegu þekkingu á slysarannsóknum í lofti, láði eða legi sem byggst hefur upp á löngum tíma.“ Þannig að hér eru áhyggjur umsagnaraðila sem snúa að rannsóknarnefndunum sjálfum og starfa þar um þennan faglega þátt, en nefndin sættir sig auðvitað ekki við að það sé með þeim hætti, það megi ekki gerast. Og margar hverjar þær ábendingar sem koma hérna fram eru mjög áhugaverðar.

Því vil ég hvetja hv. þingmann til þess að hugleiða það — af því hv. þingmaður og formaður nefndarinnar hefur brugðist vel við því að fara vandlega yfir málið á milli 2. og 3. umr. — að umhugsunarvert væri að fá þessa fulltrúa frá nefndinni og ráðuneytinu til að eiga bara eðlilegar rökræður, ekki eitthvert rifrildi, heldur eiga eðlilega rökræðu á nefndarfundinum til að menn gætu metið þetta betur. Ég hvet hv. þingmann og formann nefndarinnar til að hugleiða það.