143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

þingleg meðferð skýrslu um ESB.

[16:17]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Af hverju er ekki hægt að segja okkur það skýrt hvort farið verði með þessa tillögu með sama hætti og t.d. var farið nýlega með skýrsluna um sæstrenginn? Þar var skýrslan tekin til umfjöllunar í þingsal, hún fór síðan í góða yfirferð í nefnd og kom síðan aftur hingað til umfjöllunar. Af hverju er ekki bara hægt að segja okkur hvort umfjöllunin verði þannig eða ekki? Það er ekki hugmynd sem fleygt var fram að skýrslan færi inn í utanríkisnefnd, heldur tilkynnti forseti það hér í gær, en hann sagði okkur ekki hvað mundi síðan verða gert.

Það skiptir máli áður en við höldum áfram að ræða þessa skýrslu að við vitum hvað verður um hana, ekki bara að mögulega, kannski taki utanríkismálanefnd þetta upp í nefndinni, það væri ekkert því til fyrirstöðu. Hér er stærðarinnar mál á ferðinni — stærðarinnar mál. Það er bara fullkomlega eðlilegt (Forseti hringir.) þegar þessi skýrsla á að liggja til grundvallar ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að slíta viðræðum að umfjöllun um hana sé kláruð fyrst. Ég vil bara fá skýr svör um það, ef það er ekki hægt núna verður að flýta fundi forsætisnefndar.