Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

ábyrgð ráðherra við lokað útboð.

[15:46]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég held áfram þar sem hv. þm. Logi Einarsson hætti. Fyrir 14 árum varð efnahagshrun hér á landi, efnahagshrun sem var afleiðing eitraðs kokteils íslensks viðskiptalífs og stjórnmálalífs, kokteils sem við héldum að við hefðum sagt skilið við fyrir fullt og allt. Í kjölfar hrunsins, þar sem ríkið eignaðist skyndilega alla bankana, settum við lög um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum en tilgangurinn var að setja fastmótaðan ramma utan um það hvernig sölumeðferð eignarhluta ríkisins skyldi háttað. Lögin kveða á um skýra lagalega og pólitíska ábyrgð ráðherra á söluferlinu, að fjármálaráðherra sé skylt að skoða og samþykkja öll tilboð í eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Þetta ákvæði er ekki þarna að ástæðulausu og hæstv. forsætisráðherra veit það, enda sat hún í þeirri ríkisstjórn sem samdi og samþykkti þessi lög árið 2012. Það er ekki hægt að skýla sér á bak við það að túlkunin sé einhvern veginn öðruvísi en augljós andi laganna var. Í greinargerð með frumvarpinu segir að ráðherra beri ekki að kanna öll tilboðin í almennu útboði. Það stendur þar. Það á ekkert að gera það. En þetta á ekki við um lokuð útboð. Þar ber ráðherra að fara yfir og meta tilboðin. Ég skil ekki að hæstv. forsætisráðherra sé í alvörunni að taka þann pól í hæðina að fara að réttlæta þetta með, ég veit ekki hverju, einhverju bulli. Ákvæðinu er ætlað að koma í veg fyrir að fjármálaráðherra geti selt pabba sínum banka. Það er nákvæmlega ástæðan fyrir þessu ákvæði, til að koma í veg fyrir það en það tókst ekki. Í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu þann 8. apríl segir að upplýsingar um tilboð eða tilboðsgjafa hafi aldrei verið bornar undir fjármálaráðherra sem þýðir að hann hafi ekki skoðað tilboðin sem honum bar lagaleg skylda til að skoða. Þetta eru rétt rúmlega tvö hundruð tilboð. Við erum ekki að tala um mörg þúsund eins og verið er að reyna að rugla umræðuna með.

Spurning mín til hæstv. forsætisráðherra …

(Forseti (BÁ): Fjármálaráðherra?)

— Ja, þetta átti að vera fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra.

(Forseti (BÁ): Nú.)

Það er einhver ruglingur.

(Forseti (BÁ): Ég tilkynnti að fyrirspurnin væri til hæstv. fjármálaráðherra, samkvæmt upplýsingum frá þingfundaskrifstofu. Ef fyrirspurnin er til hæstv. forsætisráðherra verðum við að reyna það.)

Endilega. Ég get endurtekið fyrirspurnina ef það er stemning fyrir því. Það er ekkert mál. — Ég var með spurningar skrifaðar niður sem ég ætla ekkert að spyrja að. Ég ætla bara að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Finnst henni þetta í lagi? Og eru það í alvörunni viðbrögð hæstv. forsætisráðherra að skýla sér á bak við það að það hafi ekki verið andi laganna að fjármálaráðherra tæki ábyrgð og myndi undirrita tilboðin og skoða þau áður en hann gerði það?