Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[19:44]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Eins og hér hefur komið fram og verið rakið var Bankasýslan fengin til að fara í þetta ferli sem upplýsir okkur í rauninni að mjög takmörkuðu leyti um hvað það inniber. Ráðherra ber alltaf ábyrgð á endanum, það er auðvitað þannig. Að mínu mati er það þannig að ráðherra ber ábyrgð og ég held að hann hafi kannski ekki skorast neitt sérstaklega undan þeirri ábyrgð, að hún sé hans á endanum. En eins og ég sagði í framsögu minni þykir mér þetta miður af því að ég held að ef við hefðum fengið ítarlegri og gaumgæfilegri upplýsingar af þeim fundi sem við áttum með Bankasýslunni þá stæðum við kannski ekki í þessum sporum hér í dag. Ég hugsa að við hefðum a.m.k. skilað inn allt öðru áliti til ráðherra til að hefja þetta ferli að lokum.