152. löggjafarþing — 68. fundur,  26. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[00:05]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Hlutafjárútboðið í Íslandsbanka þann 22. mars síðastliðinn var það þriðja stærsta í Íslandssögunni og fyrsta stóra einkavæðingin eftir hrun. Í ljósi sögunnar og í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem hér voru undir hafði það auðvitað allt að segja að staðið yrði þannig að málum að það væri alveg skýrt að markmiðið með útboðinu og sölunni þjónaði almannahagsmunum. Það er best gert með því að tryggja gagnsæi, með því að tryggja jafnræði, með því að tryggja virka samkeppni sem eru einmitt þau skilyrði sem löggjafinn hefur sett í lögum um sölu eins og þessa. Þannig gat almenningur treyst söluferli ríkisins, sölu sem var upp á tugi milljarða króna í þetta sinn 52,5 milljarða kr.

Fyrir okkur sem erum hlynnt því að ríkið losi um eignarhlut í bönkunum er niðurstaðan eins og hún blasir við okkur núna gríðarleg vonbrigði. Niðurstaða ríkisstjórnarinnar, framkvæmd sem er á hennar ábyrgð, hefur farið með traust almennings alveg niður í gólf. Svör hæstv. fjármálaráðherra hér síðustu daga hafa verið á þá leið að þegar 83% þjóðarinnar segjast vera óánægð með niðurstöðu bankasölunnar, sem hann ber ábyrgð á, þá sé það til marks um vitlausa upplifun fólksins í landinu. Þannig talaði hæstv. ráðherra í útvarpsviðtali um helgina. En dómur sögunnar er einfaldlega sá að Sjálfstæðisflokknum er ekki treystandi í sölu sem þessa. Ég nefndi það hér fyrr í kvöld og ætla að leyfa mér að endurtaka það, af því að tískuorð stjórnarliða um þessa sölu er orðið armslengd, að ég held að niðurstaðan hljóti að verða sú að við þurfum armslengd frá Sjálfstæðisflokknum þegar við erum að höndla með hagsmuni eins og þessa.

Nú virðist manni samt sem Sjálfstæðisflokkurinn sé sjálfur sammála 83% þjóðarinnar því að ríkisstjórnin hefur boðað að ekki verði af frekari sölu. Bein afleiðing af þessari sölu er sú að það þarf að leggja niður Bankasýsluna til að bjarga lífi ríkisstjórnarinnar og fjármálaráðherra þarf að lýsa því yfir að hann muni ekki selja frekari hlut í bönkunum. Auðvitað segir það allt sem segja þarf um það hvernig til tókst.

Frú forseti. Traustið, við höfum rætt það hér í kvöld. Það er sjálfstæður og mikilvægur þáttur í framkvæmd sem þessari í ljósi hagsmuna sem eru í húfi en ekki síður í ljósi sögunnar. Traustið gengur sem rauður þráður í gegnum alla lagasetningu um fjármálafyrirtæki í kjölfar bankahrunsins og á árunum á eftir. Traustið var sem sagt svar löggjafans um það hvernig ætti að halda áfram, hvernig ætti að græða það sár sem var opið eftir bankahrun. Breytingar sem hafa verið gerðar, bæði á lögum og á eftirlitsþáttum, í kjölfar hrunsins hafa allar tekið mið af því að bregðast við veikleikum og göllum sem hrunið leiddi í ljós og um leið að fullnægja skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum. Mér finnst svo sorglegt og mér finnst svo blóðugt að rúmum áratug eftir bankahrun hafi ríkisstjórnin ekki sýnt trausti fólks meiri virðingu í þessu ferli, því að traust er forsenda þess að hægt sé að tala um vel heppnað útboð. Þegar útboð fer fram sem fer gegn markmiðum um gagnsæi, það blasir við, fer gegn markmiðum um jafnræði og gegn markmiðum um virka samkeppni þá er útboðið ekki vel heppnað.

Lög um Bankasýsluna eru skýr og lýsa markmiðum hennar vel. Hlutverk Bankasýslunnar samkvæmt lögum er að leggja áherslu á endurreisn og uppbyggingu öflugs innlends fjármálamarkaðar og stuðla að virkri og eðlilegri samkeppni þar og jafnframt að tryggja gagnsæi í allri ákvarðanatöku varðandi þátttöku ríkisins í fjármálastarfsemi. Listinn góði yfir fjárfestana, sem stjórnarliðar tala mikið um að þau hafi birt, sýndi að valinn hópur fólks fékk að kaupa hlutabréf með 4% afslætti og við vitum það öll hér í þessum sal að nöfnin á þeim lista vekja ekki öll hrifningu. Það eina sem þurfti til að taka þátt var að þessir aðilar skilgreindu sig sjálfir sem fagfjárfesta. Stjórnvöld gerðu engar kröfur aðrar, ekki kröfur um lágmarksfjárhæð, ekki kröfu um orðspor. Fjármálaráðherra hefur talað um að hæfir fjárfestar hafi fengið afslátt vegna þess að þeir myndu kaupa stærri hlut í bönkunum en aðrir og nefndi jafnframt að óvissa væri um þróun hlutabréfaverðs vikurnar eftir útboðið. Svo kom auðvitað í ljós að sumir fjárfestanna voru að kaupa fyrir svo lágar fjárhæðir að þessi rök halda alls ekki. Almenningi var haldið fyrir utan útboðið með rökum sem ekki héldu. Til viðbótar fáum við svo fréttir af því að þeir sem seldu, keyptu.

Mér finnst miklu skipta að forsætisráðherra geri grein fyrir umræðum í ráðherranefnd um efnahagsmál og hvort það sé rétt að það hafi verið átök innan ríkisstjórnarinnar um aðferðafræði í aðdraganda útboðsins, hvort það sé virkilega rétt að ekkert hafi verið rætt um það hvernig tryggja átti skilyrði laganna um að tryggja dreift eignarhald. Hverjar voru umræður um það hverjir væru langtímafjárfestar og hverjir væru skammtímafjárfestar? Hvers vegna var ekkert skilyrði um orðsporsáhættu? Í lögum um Bankasýsluna er alveg skýrt að Bankasýslan leggur tillögu á borðið. Það er hennar hlutverk. Hún leggur tillögu til fjármálaráðherra sem síðan tekur ákvörðun um hvaða leið er farin. Pólitísk ábyrgð er þess vegna algjörlega skýr hjá fjármálaráðherra og meðvirkni Vinstri grænna og Framsóknarflokksins getur ekki breytt þeim veruleika. Þegar þingmenn VG stóðu hér í upphafi þessa máls og kröfðust þess að Bankasýslan myndi víkja voru þeir kannski óafvitandi að fara fram á það að fjármálaráðherra viki einnig því að Bankasýslan er framkvæmdaraðili fjármálaráðherra. Hún framkvæmir hans ákvarðanir og þetta tvennt verður ekki í sundur skilið.

Rök ríkisstjórnarinnar voru þau að hæfir fagfjárfestar myndu best ná fram markmiðum ríkisins með sölunni og eitt meginverkefni stjórnvalda væri þess vegna að velja þessa hæfu kaupendur. Tal um annað núna eftir á heldur ekki vatni. Skattgreiðendur fengu lægri hlut fyrir sölu bankans vegna þess að það átti að leita til fagfjárfesta en litlir skammtímafjárfestar voru engu að síður stór hluti kaupenda. Sumir þeirra seldu strax, græddu á fjárfestingunni, almenningur tapaði. Þegar við horfum á þennan afslátt er kannski grátbroslegt til þess að hugsa að það er verið að tala um að þetta séu einhverjir 2 milljarðar sem er kannski sama upphæð og ríkisstjórnin splæsti á sjálfa sig í upphafi þessa stjórnarsamstarfs þegar hún fór í það að stækka Stjórnarráðið. En hafi stjórnvöld talið sig vera í vandræðum með viðmið um mat og hæfi kaupenda liggja þessi viðmið fyrir nokkuð víða í lögum. Meira að segja í lögum um fjármálafyrirtæki er upptalning á atriðum sem má skoða, að vísu er verið að ræða um aðila sem vilja kaupa virkan eignarhlut í fjármálafyrirtækjum, sem er annar þáttur, en engu að síður má sjá þar hvaða takt löggjafinn hefur áður slegið þar sem gerð er krafa um aðra hluti en bara nafn og stærð hlutar. Þar er krafist upplýsinga um fjárhagsstöðu, viðskiptatengsl, reynslu, eignarhald, stjórnarsetu, dóma og hvort viðkomandi sæti rannsókn og allar aðrar upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegar og birtir opinberlega. Það er alls ekki þannig að í lögum sé það alveg óþekkt að setja kröfur eða krefjast upplýsinga, alls ekki. Það hefði ekkert þurft að fara lengra en bara í lögin um fjármálafyrirtæki. Svörin hafa vissulega verið þau að Bankasýslan leggi ekki mat á hvort fjárfestar uppfylli skilyrði til að teljast fagfjárfestar. Það mat liggi hjá fjármálafyrirtækjunum sjálfum en Fjármálaeftirlitið getur kannað og rannsakað skilgreiningar fyrirtækjanna og um leið er alveg ljóst að ábyrgð fjármálaráðherra á gæðum fjárfestinganna var svo sannarlega til staðar. Þeir þrír ráðherrar sem mest höfðu um söluna að segja sitja saman í ráðherranefnd um efnahagsmál. (Forseti hringir.) Hin pólitíska ábyrgð, sem á að skapa umgjörð sem nýtur trausts almennings, var á ábyrgð ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) og við eigum rétt á svörum um það hvað gerðist í hinum pólitíska aðdraganda málsins.