139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

málshöfðun á hendur breska ríkinu fyrir alþjóðlegum dómstól vegna beitingar hryðjuverkalaga.

227. mál
[17:49]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég varð reyndar fyrir miklum vonbrigðum með niðurstöðu þeirrar nefndar, Select Committee, í breska þinginu vegna þess að mér fannst það vera hálfgert „mehe“ sem hún sagði. Niðurstaða hennar gekk miklu skemmra en ég hafði vænst. Hún gekk ekki lengra en segja að með þessari ákvörðun hefði breska ríkisstjórnin gerst beinn þátttakandi á markaði í því efnahagslega fárviðri sem gekk yfir Ísland og ekki væri séð fyrir endann á. Eins varð ég fyrir miklum vonbrigðum með formann nefndarinnar sem Íslandsdeild Evrópuráðsins greindi frá í dag vegna þess að hann sagði bókstaflega, og þá er ég að vísa í Morgunblaðið en ekki orð þeirra tveggja í dag, að hryðjuverkalöggjöfin næði líka til annarra þátta en hryðjuverka og það væri í krafti þeirra sem Ísland hefði verið beitt þessu harðræði.

Sá dómur sem hv. þingmaður vísar til og gekk fyrir hæstarétt í Bretlandi varðaði hryðjuverkamenn. Þau ákvæði sem beitt voru gagnvart Íslandi, eins og ég hef alltaf skilið þetta, vörðuðu aðra hluti. Í þessari löggjöf eru ákveðin ákvæði sem varða annað en hryðjuverkamenn beinlínis þó að (Gripið fram í.) hún heiti The Terrorist Act. Ég held að það sé skýringin.

Í öllu falli ætla ég samt að halda áfram að átelja hv. þingmann. Ef hann er svona sannfærður um þetta og gefum okkur að það sé rétt, hvers vegna er hann ekki búinn að koma fram með tillögu um þetta fyrir lifandis löngu ef þessi rök hans eru svona góð? Nú tel ég að innan nokkurra daga fáist niðurstaða í það hvort rökin séu góð vegna þess að ég tel að við umfjöllun og vinnu nefnda í þinginu verði þau skoðuð. Þá yrði t.d. skoðað hvort hægt væri að heimfæra þennan breska dóm og þau ákvæði sem þar voru dæmd ólögmæt gagnvart tilteknum hryðjuverkamönnum yfir á þessa ákvörðun líka. (Forseti hringir.) Sé svo tel ég að þáverandi ríkisstjórn hafi gert rangt, (Forseti hringir.) þá tel ég að hv. þingmaður hafi haft rétt fyrir sér, en það mun tíminn leiða í ljós og fyrr en seinna.