141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

ársreikningar.

94. mál
[17:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Hér er um að ræða síðara málið sem ég nefndi áðan, ársreikninga. Þær breytingartillögur sem nefndin flytur og mestu varða, lúta að upplýsingum um eigendur. Hingað til hefur þurft að upplýsa um eigendur sem eiga 10% hlut eða þaðan af meira en hér er gert ráð fyrir að upplýst sé í fylgiskjali með ársreikningi um alla eigendur hvers og eins félags til að stuðla að auknu gagnsæi. Aðrar breytingartillögur varða að mestu leyti tæknilega þætti.

Nokkur umræða hefur skapast um útvíkkun á heimild til að skila ársreikningum á ensku og dönsku, í þeim tilfellum þegar eigendur fyrirtækja eða stjórnarmenn eru erlendir. Hér er ekki um nýmæli í íslenskri löggjöf að ræða. Um langt árabil, að minnsta kosti í áratug, að ég hygg, hefur verið heimilt fyrir þá sem gera upp í erlendri mynt að skila ársreikningum á erlendum málum og hefur sú heimild verið nýtt nokkuð. Ekki er kunnugt um að við það hafi skapast nokkur þau vandkvæði sem gefi tilefni til að leggjast gegn þeirri tillögu sem flutt var af atvinnuvegaráðuneytinu um að útvíkka hana jafnframt til þeirra félaga sem eru í eigu erlendra aðila eða þar sem stjórnarmenn eru erlendir. Er því fallist á tillöguna.

Að öðru leyti leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með framkomnum breytingartillögum.