143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:36]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það kom mjög vel fram í ræðu hv. þingmanns hversu flókin staðan er, hún er ekki bara flókin efnislega heldur líka pólitískt. Við, þingflokkur Vinstri grænna, höfum lagt fram nú í kvöld þingsályktunartillögu sem snýst um að gera formlegt hlé á aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins og fela ríkisstjórninni að gera Evrópusambandinu grein fyrir þeirri afstöðu og að aðildarviðræðum verði ekki haldið áfram nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu eigi síðar en við lok kjörtímabils.

Þetta er viðleitni, þetta er leið til að halda utan um öll þau sjónarmið sem hér hafa verið undir í einlægni með lýðræðissjónarmið að leiðarljósi til þess að horfa fyrst og fremst á viðfangsefnið okkar núna sem lýðræðisverkefni, miklu frekar sem lýðræðisverkefni en sem ásteytingarstein eða ágreiningsmál.

Ég velti því upp hér við hv. þingmann hvort hann sjái þá fyrir sér að einhver svona mál gætu verið leið til að ná utan um sjónarmiðið.