146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

útlendingar.

544. mál
[18:16]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið en ég má til með að koma hér upp og taka undir hvert orð sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson lét falla rétt í þessu, sérstaklega um að við þurfum að vanda betur til verka. Mig langar að nefna til nokkur dæmi í viðbót.

Við erum enn og aftur að fara að laga lög um kjararáð þar sem inn slæddust einhverjar meinlegar villur. Það þurfti margt að laga í fjárlögunum þar sem ýmislegt gekk á, þar sem okkur lá svo mikið á að afgreiða þau til að komast af þinginu. Ég held að það vanti talsvert meiri stuðning við þingmenn, við nefndir og við ráðuneytin til þess að vinna málin vel. Ég tel það heillavænlegt fyrir þingið að við fjárfestum í auknum mannafla og auknum stuðningi við þingmenn og þingið í heild til þess að vinna mál betur og vera vandvirkari þegar svona lagasetning fer í gegn. Ég mun kynna minnihlutaálit allsherjar- og menntamálanefndar í öðru máli þar sem lagasetning var ekki alveg nógu vönduð. Ég mun ræða það betur í næsta máli á dagskrá þegar rædd verða lög um vegabréf þar sem meinleg villa læddist inn í greinargerð með frumvarpinu. Í stað þess að taka bara á sig mistökin og leggja málið fram aftur, sem hefði alveg verið hægt, var ákveðið að halda áfram með ranga greinargerð.

Svo ég bæti aðeins við ræðu hv. þingmanns verðum við líka að vera svolítið duglegri við að bera meiri virðingu fyrir okkar eigin vinnubrögðum og því sem við hleypum í gegn á þessu þingi þegar við sjáum að það eru gallar á málunum og við vitum að ekki er rétt að þeim staðið, að við hleypum ekki einhverjum málum í gegn sem ekki eru nógu vel unnin, í nafni einhverrar hagræðingar eða tímahugsjónar eða þess háttar sem hefur ekkert með trúverðugleika löggjafans að ræða. Það er líka stundum spurning um að horfa inn á við og athuga hvað við erum tilbúin að samþykkja á þessu þingi þegar við vitum að það vantar upp á. Núna á síðustu dögum þessa þings ætti það að vera okkur öllum mjög ofarlega í huga þar sem einhverjar meinlegar villur munu eflaust slæðast í gegn.