152. löggjafarþing — 68. fundur,  26. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[00:18]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Tilkynningin sem þingmaðurinn vísar í gerði auðvitað tvennt. Hún sagði frá því að ríkisstjórnin hefði tekið ákvörðun um að leggja Bankasýsluna niður. Hún greindi jafnframt frá því, sem er frávik frá stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sjálfrar, að ekki yrði um frekari sölu á hlutum í Íslandsbanka að ræða. Það segir allt sem segja þarf um það hvort um vel heppnaðan gjörning var að ræða eða ekki. Stefna ríkisstjórnarinnar var sú að halda söluferlinu áfram. Af því að við vorum að ræða um traust hér í þessum sal þá skiptir það auðvitað máli fyrir allan almenning í landinu en það skiptir líka máli fyrir markaðinn. Í því sambandi fannst mér áhugavert að heyra ræðu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hér fyrr í kvöld þar sem hann var að velta því fyrir sér hvað tæki við, hvað gerðist svo. Fari ríkisstjórnin í að leggja fram frumvarp um að leggja Bankasýsluna niður má gera ráð fyrir því að þau lög taki ekki gildi fyrr en á næsta ári. Í millitíðinni situr þá stjórn og forstjóri með öskrandi vantraust frá ríkisstjórninni sjálfri og löskuð vegna umræddrar aðferðafræði. Það er ekki bara umhugsunarvert hvernig staðið var að sölunni sjálfri. Eftirleikurinn vekur jafnstórar spurningar, þessi fréttatilkynning ríkisstjórnarinnar. Þegar við skoðum síðan lögin um Stjórnarráðið var frumvarp um Bankasýsluna ekki til umræðu á ríkisstjórnarfundi eins og lögin gera kröfu um.