152. löggjafarþing — 68. fundur,  26. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[01:06]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, mér finnst það vera svolítið þannig núna þegar það liggur nokkurn veginn fyrir hvað gerðist, við vitum þetta í grófum dráttum. Það er hægt að súmmera þetta upp einhvern veginn þannig að staðreynd málsins er sú að það fór fram lokað útboð sem almenningur gat ekki tekið þátt í, sem endaði þannig að m.a. pabbi fjármálaráðherra fékk að kaupa hlut í banka og ýmsir menn með mjög vafasama fortíð, með dóma á bakinu, jafnvel sakborningar í efnahagsbrotamálum, og að þjóðinni blöskri þetta og það sé komin upp ákveðin traustskrísa. Þetta er tilraun til að súmmera upp hvað gerðist. Nú finnst mér svolítið hvíla sú skylda og sú ábyrgð á okkur hérna inni að reyna að koma þessu bæði hratt og vel áfram, fyrst og fremst vel en það þarf líka að hafa hraðar hendur þegar hlutir eru rannsakaðir af því að annars geta rannsóknarhagsmunir farið til spillis. Mér finnst í rauninni bara skipta ofboðslega miklu máli að tala um afleiðingarnar og ákveðna tæknilega þætti eins og það á hvaða vettvangi sé eðlilegt að athugun fari fram á þessu, hvernig sé hægt að tryggja sem mest traust á þeirri athugun og hvernig nákvæmlega viðbrögð okkar hér eiga að vera. Umræðan um hitt, þessi grundvallaratriði, ómar alls staðar í samfélaginu. Mér finnast umræðurnar hér í dag bæði hafa lotið að þessum tæknilegu atriðum og viðbrögðunum en líka að þessum grundvallarþáttum. Ég var mjög ánægður sérstaklega með yfirferð hv. þm. Loga Einarssonar um þetta áðan, hún var mjög góð, og yfirferð Kristrúnar Frostadóttur í dag. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir fór líka mjög vel yfir ákveðin grundvallaratriði. Ég held að það sé ekki annaðhvort eða, við þurfum bara að ræða þetta allt.