133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

72. mál
[17:29]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður hlustaði á svar mitt áðan. Mér heyrðist það ekki á svörum hans. Það er alls ekki þannig að Framsóknarflokkurinn forðist umræðu um sjávarútvegsmál. Ef það er eitthvað á okkar vettvangi eða í okkar orðræðu almennt í stjórnmálum sem við höfum rætt um þá hafa það verið sjávarútvegsmálin. Það þekkir hv. þingmaður vel.

Mér fannst reyndar af þeirri tillögu sem hv. þm. Sigurjón Þórðarson setti fram fyrr, um hvernig ætti að fara að því að styrkja þá sem fara í langt nám í skóla sem tækju skólagjöld, að hann legði frekar til að samkeppnisstaða ríkisreknu skólanna á við skóla sem taka skólagjöld væri enn frekar skert meðan ég hef verið þeirrar skoðunar að leita leiða til að rétta af samkeppnisstöðu ríkisreknu skólanna, enda hafa þeir ekki sömu tækifæri og þeir sem rukka skólagjöld til að hafa tekjur.

Þetta er auðvitað (SigurjÞ: Ertu fylgjandi þessum háu skólagjöldum eða ekki?) umræða sem við verðum að taka. Ég er þeirrar skoðunar eins og ég sagði í ræðu minni áðan að mikilvægt væri að fólk hefði þetta val. Ég er ekki þeirrar skoðunar að Alþingi okkar Íslendinga geti ákveðið hver skólagjöldin eigi að vera í skólum sem hafa heimild til að rukka skólagjöld. Við höfum aftur á móti Lánasjóð ísl. námsmanna sem tryggir þeim sem kjósa að fara í þá skóla val og geta greitt það niður, eins og við vitum að fyrirkomulagið er. Við höfum ríkisrekna háskóla sem standa öllum opnir. Til hliðar við þá starfa skólar sem þiggja skólagjöld og hafa sannarlega hleypt lífi í háskólaumhverfi okkar. Við eigum að fagna því frekar en hitt. Samkeppnin hefur styrkt ríkisrekna háskóla okkar. Ég held að við eigum að ræða um að styrkja áfram Lánasjóð íslenskra námsmanna enda hlýtur það að vera grundvallaratriði til að jafna aðgang allra að háskólanámi. Það er okkar verkefni.