139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

sala fyrirtækja í almannaeigu -- Íbúðalánasjóður -- Læknavaktin o.fl.

[14:34]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka það strax fram að ræða mín verður alveg í óbundnu máli.

Ég tek undir og fagna eins og hv. þm. Helgi Hjörvar þeim fréttum sem bárust frá Hagstofu Íslands um stöðu sjávarútvegsins. Vonandi verður þetta til að kveða niður það svartagallsraus í garð sjávarútvegsins sem hefur vaðið uppi svo lengi, m.a. úr ræðustól Alþingis. Ég mundi líka vilja óska eftir því að hæstv. forsætisráðherra kynnti sér þessar tölur sem sýna okkur að sjávarútvegurinn leggur gríðarlega mikið til þjóðarbúsins. Það er athyglisvert að á þessum erfiðu og viðsjárverðu tímum sýnir sjávarútvegurinn þennan hagnað og sömuleiðis eru upplýsingar í þessum gögnum sem sýna að sjávarútvegurinn er að greiða niður skuldir sínar.

Það kom fram á geysifjölmennum og mjög fróðlegum fundi sem ég sat í gærkvöldi norður á Akureyri að nettóskuldir sjávarútvegsins eru 425 milljarðar kr. sem er mjög lágt hlutfall miðað við hlutfall skulda annarra atvinnugreina. Þetta er í ósamræmi við það sem talað hefur verið um, að sjávarútvegurinn sé ekki til þess fær að standa undir skuldum sínum, og langt undir þeim tölum sem nefndar hafa verið í þessu sambandi. Engu að síður er hægt að eyðileggja góða atvinnugrein ef fylgt er eftir vondri stefnu. Þær hugmyndir sem uppi hafa verið um að fyrna aflaheimildir á 20 árum munu gera þennan árangur að engu og gera það að verkum að helmingur sjávarútvegsfyrirtækja fer í gjaldþrot með tilheyrandi byggðaröskun í kjölfarið.