139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[17:34]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil að hæstv. utanríkisráðherra sé ómótt. Hann er vanur að skilja okkur framsóknarmenn betur en við sjálfir (Gripið fram í.) og greina það sem fram fer í okkar höfði. Ég get ekki útskýrt afstöðu mína betur en kemur fram í álitinu. Ég skýri það mjög ítarlega. Ég reyndi líka að útskýra það hér í ræðu og hafði upp nákvæmlega sömu orð og komu í álitinu. Að koma því inn í höfuðið á hæstv. utanríkisráðherra er kannski eins og að berja hausnum við steininn, ég veit að höfuðið mun gefa eftir á endanum. [Hlátur í þingsal.] Ég er einfaldlega á móti. Afstaða Framsóknarflokksins hefur alltaf verið mjög skýr í málinu. Við höfum verið á nei-takkanum hingað til (Utanrrh.: Þangað til núna?) og höfum lagst alfarið gegn málinu. Ég hef sagt það mjög skýrt að við erum alfarið á móti þessu samkomulagi.

Það er eitt samt sem mig langar að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir, það að í fyrri umræðu þessa máls var hann eini stjórnarliðinn sem virtist skammast sín pínulítið fyrir það (Utanrrh.: Það kann hann.) — það kann hann og það ber að virða — skammast sín fyrir baráttu sína fyrir því að þessir samningar yrðu samþykktar á fyrri stigum. Það örlaði á afsökunarbeiðni og það ber að virða.

Ég hvet hæstv. utanríkisráðherra til að ræða við samherja sína og fá þá einnig til þess að koma hér í pontu og biðjast afsökunar á því að hafa ætlað að knýja þetta mál til lykta á fyrri stigum með tilheyrandi afleiðingum fyrir komandi kynslóðir þessa lands.