144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[22:08]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það með hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur að í sjálfu sér væri eðlilegast að hv. formaður atvinnuveganefndar óskaði eftir því að málið færi aftur til nefndarinnar áður en við lykjum 2. umr. Það væri alla vega vísbending um að menn hefðu áhuga á að skoða málið og taka tillit til þeirra athugasemda sem fram hafa komið. Það er svolítið sorglegt fyrir Alþingi Íslendinga að horfa upp á þann ágreining sem hér er á milli nefnda sem báðar eru leiddar af stjórnarliðum, um að mál hafi ekki verið unnin almennilega og ekki send inn fyrr en allt of seint, og ásakanir hv. formanns atvinnuveganefndar í garð hv. formanns umhverfis- og samgöngunefndar.

Það væri að minnsta kosti tímans virði að viðkomandi aðilar settust niður, og helst þessar tvær nefndir, og færu yfir stöðu málsins og reyndu að skoða hvaða mál það eru sem hafa komið fram í umsögnum en ekki hlotið sérstaka umfjöllun í nefndarálitum — þá á ég við frá hv. atvinnuveganefnd, krossapróf — og hvað af því er hægt að ná samkomulagi um.

Ef maður les þetta mál og skoðar það þá skilur maður ekki af hverju þetta klúður kemur upp. Af hverju er búið að koma þessu í þetta klúður? Þetta er mál sem átti að vera til gagns, þetta er mál sem átti að leiða hlutina í farveg til að leysa þá á betri hátt en nokkurn tíma áður. Hvernig í veröldinni tókst að klúðra þessu svona?

Ég segi þess vegna: Þetta þarf að vera opinn gegnsær vettvangur. Ég tel nauðsynlegt að Alþingi fái að fjalla um málið, að kerfisáætlanir verði lagðar fyrir Alþingi með tilheyrandi umsögnum. Ég tel að það sé augljóst að ræða þarf umhverfismálin og tryggja aðkomuna. Menn geta ekki bara kastað þessu inn, svo fer það til atvinnuveganefndar, þar talar maður um nýtingu og svo fer það til umhverfisnefndar, þá verður maður að vera á móti öllu sem heitir nýting og með umhverfismálum. Málið er ekki svona einfalt. Við erum að tala um að leiða þessa tvo aðila saman.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að hægt er að ná sátt en það kostar vilja.