152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það skiptir máli hver stjórnar, sögðu Vinstri græn í síðustu kosningum og margir spurðu sig hvort það væri ekki bara best að kjósa Framsókn. Þessir flokkar virðast aftur á móti hafa afsalað sér áhrifum til Sjálfstæðisflokksins. Hér er það hæstv. fjármálaráðherra sem ræður nema þegar illa gengur, þá virðist hann ekkert vald hafa. Hans undirstofnanir sjá um þetta allt saman. Við stöndum frammi fyrir stórum verkefnum; eftirköst heimsfaraldurs, mesta verðbólga í 12 ár, brotinn húsnæðismarkaður, stríð í Evrópu og hingað mætir hæstv. ríkisstjórn eða hæstv. fjármálaráðherra eða kannski er það bara fjármálaráðuneytið, með fjármálaáætlun út kjörtímabilið sem felur í sér einfaldan framreikning. Hæstv. innviðaráðherra sagði í umræðu um húsnæðismál hér í þinginu í síðasta mánuði að hann hefði lagt inn tillögur í fjármálaáætlun um verulega aukningu fjármuna til að standa að umfangsmikilli uppbyggingu félagslegs húsnæðis vegna húsnæðiskreppu. Formaður Framsóknarflokksins fékk nei frá hæstv. fjármálaráðherra. Það verður engin aukning heldur 2 milljarða kr. niðurskurður í uppbyggingu húsnæðis. Ætli hæstv. fjármálaráðherra hafi sagt við formanninn að fjármálaráðuneytið hafi bara reiknað þetta svona út, svona eins og með Bankasýsluna sem ber alla ábyrgð á bankasölunni samkvæmt hæstv. ríkisstjórn? Vinstri græn og Framsókn hafa gengið inn í fullmótað kerfi Sjálfstæðisflokksins. Hendur allra eru bundnar. Enginn ætlar að bera ábyrgð. Hæstv. forsætisráðherra virðist hætt í pólitík. Hún les bara upp þurrar yfirlýsingar um bankasöluna sem virðast skrifaðar af lögfræðingum í ráðuneytinu. Svo mætir hæstv. fjármálaráðherra með blússandi hroka eftir páskafrí og er kominn með nýja nálgun: Afneita, afneita, afneita.

Já, það skiptir máli hver stjórnar. En hér eru það ekki Vinstri græn og það virðist engu máli hafa skipt þótt fólk hafi kosið Framsókn. Þessir flokkar hafa enn tækifæri til að sýna að þau eru ekki hætt í pólitík með því að hætta þessari meðvirkni með Sjálfstæðisflokknum.