131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Stuðningur við krabbameinssjúklinga.

303. mál
[14:34]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli og fyrir góð orð um reglugerðarbreytinguna sem hún gat um. Það er rétt, ég svaraði fyrirspurn um þetta mál frá hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur nýverið. Ég hélt fyrst að það væri komin einhver undiralda í flokkinn en svo mun ekki vera.

Svarið við fyrirspurnum hv. þingmanns er að Tryggingastofnun ríkisins rekur sérstaka hjálpartækjamiðstöð sem veitir styrki vegna hjálpartækja samkvæmt reglugerð nr. 460/2003, um styrki Tryggingastofnunar ríkisins vegna hjálpartækja. Hjálpartækjamiðstöð Tryggingastofnunar greiðir styrki vegna hjálpartækja sem eru til lengri notkunar en þriggja mánaða til að auðvelda fólki að takast á við athafnir daglegs lífs. Einkum er um að ræða hjálpartæki til sjálfsbjargar og öryggis í ákveðnum tilvikum, og í ákveðnum tilvikum til þjálfunar og meðferðar. Hjálpartækin verða jafnframt að teljast nauðsynleg og hentug til að bæta möguleika viðkomandi einstaklings til að sjá um daglegar athafnir.

Þann 1. desember 2004 tók, eins og áður segir, gildi breyting á framangreindri reglugerð sem veitir einstaklingi meira val á hjálpartækjum sem nauðsynleg eru vegna hárleysis af völdum sjúkdóma, t.d. vegna krabbameinsmeðferðar eða útbreidds langvarandi blettaskalla. Breytingar á reglugerðinni fela í sér að fólk hefur val um að nýta styrk frá Hjálpartækjamiðstöð Tryggingastofnunar ríkisins til kaupa á hárkollu eða sérsniðnum höfuðfötum, gerviaugabrúnum og augnhárum í stað hárkollu eingöngu. Hjálpartækjamiðstöðin veitir styrki til kaupa á gervibrjóstum og gervibrjóstahöldum þegar konur hafa misst brjóstið vegna sjúkdóms eins og krabbameins. Reglugerðarbreytingin frá 1. desember 2004 veitir konum meira val þegar veittir eru styrkir til kaupa á þessum hjálpartækjum.

Ég hef falið samninganefnd heilbrigðis- og tryggingaráðuneytisins að kanna hvort unnt sé að gera samninga við aðila sem húðflúra fólk sem hefur lýti vegna sjúkdóma eins og krabbameins. Ég tel að samninganefndin sé rétti vettvangurinn fyrir slíka samninga. Það er mat nefndarinnar að of mörg vafaatriði séu tengd húðflúrsmeðferð og að gera verði miklar kröfur til meðferðarinnar. Þá verður kostnaður að vera innan skynsamlegra marka. Samninganefndinni hefur ekki, eins og kom fram í svari mínu við fyrirspurn hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, tekist að gera samninga í samræmi við þær kröfur sem hún gerir en málið er enn til skoðunar í nefndinni.

Tryggingastofnun ríkisins greiðir ekki styrki vegna hjálpartækja til þeirra sem vistast á sjúkrastofnunum. Hið sama gildir um öldrunarstofnanir. Í þeim tilvikum á viðkomandi stofnun að sjá vistmönnum fyrir öllum hjálpartækjum samkvæmt reglugerð nr. 422/1992, um greiðslur öldrunarstofnana fyrir heilbrigðisþjónustu. Tryggingastofnun ríkisins greiðir þó styrki til þeirra sem dveljast á sjúkrahúsi eða stofnun vegna hjólastóla með skilaskyldu að notkun lokinni.

Einstaklingur sem útskrifast af sjúkrahúsi og býr í heimahúsi á rétt á styrk frá Tryggingastofnun ríkisins vegna kaupa á hjálpartækjum sem beinlínis er aflað til að viðkomandi geti útskrifast. Styrkir vegna hjálpartækja eru veittir þeim sem eru sjúkratryggðir hér á landi samkvæmt lögum um almannatryggingar og gildir það jafnt um fullorðna sem börn. Þó má geta þess að börn fá í mörgum tilvikum hærri styrki og fleiri hjálpartæki en fullorðnir.

Virðulegi forseti. Ég tel að reglugerð um styrki Tryggingastofnunar ríkisins vegna hjálpartækja komi verulega til móts við þarfir þeirra einstaklinga sem þurfa á hjálpartækjum að halda vegna sjúkdóma eða fötlunar. Þörfin er sú sama hver sem sjúkdómurinn er. Reynt er að koma til móts við óskir fólks og veita fólki meira val. Hafði reglugerðarbreytingin 1. desember sl. m.a. þann tilgang.