131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Hjólreiðabrautir meðfram Vesturlandsvegi.

416. mál
[15:22]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með svar hæstv. samgönguráðherra. Það eru mér sannarlega vonbrigði að ekkert skuli hafa gerst í þessum málum meðan ég hef setið á Alþingi. Ég hef reynt að brýna hæstv. samgönguráðherra til dáða í þessum efnum. Enn eina ferðina vísar hæstv. samgönguráðherra á sveitarfélögin til að leysa samgöngumál hjólreiðafólks. Með hvaða rökum er það gert? Og hvaða tekjustofnar fylgja því? Engir, auðvitað.

Auðvitað reynir Vegagerðin að koma sér hjá því, sem framkvæmdaraðili, að þurfa að leggja hjólreiðabraut meðfram stofnbrautinni þegar lögð er tvöföld hraðbraut eins og í tilfelli Vesturlandsvegar. Það er náttúrlega skammarlegt að hæstv. samgönguráðherra skuli bjóða upp á þetta svar, að sveitarfélögin geti séð um þetta.

Við í sölum Alþingis höfum lengi talað um að stofnbrautum í þéttbýli þurfi að fylgja hjólreiðastígar ef hjólið á að vera samgöngutæki. Það vill hæstv. samgönguráðherra í orði kveðnu. Hvers vegna fylgir hann því ekki eftir að hjólreiðafólk fái hjólreiðastíga meðfram stofnbrautum sem ríkið kosti? Sveitarfélögin geta lagt útivistarstíga áfram. Það hafa þau verið misdugleg við að gera. Reykjavíkurborg hefur staðið sig afskaplega vel í þeim efnum og eflaust einnig nágrannasveitarfélögin, án þess að ég þekki það nógu vel. En það sem vantar upp á er tenging þessara þéttbýlissvæða, ekki hvað síst á höfuðborgarsvæðinu. Sú tenging á að vera á forræði ríkisins, ef við ætlum fólki að geta hjólað frá Reykjavík til Mosfellsbæjar þá á það að vera meðfram stofnbrautinni sem ríkið kostar. Ríkið á að búa til hjólreiðabrautina sem óhjákvæmilega fylgir stórum umferðarmannvirkjum á borð við Vesturlandsveg tvöfaldan.

Mér finnst þetta forkastanlegt svar. Ég minni hæstv. ráðherra á að það liggur fyrir frumvarp frá þingmönnum úr öllum flokkum, m.a. þingmönnum sem hafa átt sæti í umhverfisnefnd Alþingis, sem leggja það til að stofnbrautir fyrir hjólreiðafólk liggi meðfram öllum stofnbrautum í þjóðvegakerfinu sem ríkið kostar.