133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

sameiginleg stefna í ferðamálum fyrir Vestur-Norðurlönd.

84. mál
[18:37]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða og líka gríðarlega mikil tækifæri fyrir þjóðirnar þrjár. Ef þær ná að vinna saman er ég sannfærður um að þær geta allar hagnast gríðarlega.

Grænland er land tækifæranna. Þar er gríðarlega mikil náttúrufegurð sem Íslendingar geta hagnýtt sér. Ef góður samningur næst, um loftferðir milli Íslands og Grænlands og Íslands og Færeyja, er ég sannfærður um að Ísland geti orðið miðstöð fyrir ferðamennsku í þessum heimshluta.

Við getum einnig miðlað þessum þjóðum með ýmsum öðrum hætti. Ég vil nefna hér menntamálin. Við höfum verið að fikra okkur áfram hvað varðar menntun á sviði ferðamennsku. Þar hefur Háskólinn á Hólum unnið gott starf. Mér skilst að verið sé að leggja drög að samstarfi Hólaskóla og ferðamálayfirvalda á Grænlandi. Eflaust mætti nota það samstarf til að tryggja enn frekari ávinning og samstarf þjóðanna.

Eftir að hafa komið til Grænlands er ég algjörlega sannfærður um að það er land sem dregur ferðamenn að sér, rétt eins og Ísland og Færeyjar. Þar eru gríðarlega mörg ónýtt tækifæri. Hér eru sannarlega mikil tækifæri og við eigum að gera okkur far um að vera í samstarfi með þessum þjóðum til að nýta þau í framtíðinni.