136. löggjafarþing — 69. fundur,  20. jan. 2009.

ástæður Breta fyrir beitingu hryðjuverkalaga gegn Íslendingum.

[13:57]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra. Ég hlýt að spyrja að því hvort leitað hafi verið eftir svörum frá breskum stjórnvöldum um hvers vegna þessum hryðjuverkalögum var beitt. Það er það sem er inntakið í spurningu minni: Hvað varð þess valdandi að hryðjuverkalögunum var beitt?

Ég tek undir það með hæstv. forsætisráðherra að að sjálfsögðu var það svívirðileg aðgerð sem Bretar beittu okkur. Og þess vegna hljótum við að gera kröfu um að fá allar upplýsingar um málið sem allra fyrst. Hvað varð þess valdandi að bresk stjórnvöld sáu sig tilknúin að beita hryðjuverkalögum? Hver hafa viðbrögð ríkisstjórnarinnar verið? Þau hafa nánast engin verið og hún ætlar ekki að höfða mál á þeim grundvelli, telur það sjálfsagt vonlaust. Ég þekki það mál ekki en ég spyr: Hefur ekki verið spurt um þetta atriði? Hafa íslensk stjórnvöld ekki spurt um hvernig á því stendur að bresk stjórnvöld beittu okkur hryðjuverkalögunum?

Ef það hefur ekki verið gert tel ég að íslensk stjórnvöld hafi gjörsamlega brugðist skyldum sínum við íslensku þjóðina. (Forseti hringir.) Og ég hlýt að fara fram á að þegar verði leitað svara og þjóðin upplýst um það nú þegar hvernig á því stóð (Forseti hringir.) að Bretar beittu hryðjuverkalögum gagnvart Íslandi.