148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

tollalög.

518. mál
[20:51]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum kærlega fyrir þessa innihaldsríku ræðu enda er þetta áhugavert mál á mjög marga vegu, sem ég komst að þegar ég skoðaði málið betur í 1. umr. Mál þingmannsins var viðamikið og snerti á ansi mörgum mjög alvarlegum málum og því lítur spurning mín til hans kannski dálítið lítilfjörlega út og ég biðst afsökunar á því. Það snertir mig dálítið, þegar þingmaðurinn talaði um kaffið og súkkulaðið, því að í þessum rannsóknum mínum fyrir þingmálið í 1. umr. komst ég að því að hærri tollur er á súkkulaði en á kaffi. Mér fannst það mjög undarlegt og velti fyrir mér hvort ekki væri hægt að bæta úr því. Ég er ekki kaffidrykkjumaður þó að ég geri ekki lítið úr áhrifamætti kaffis, ég sé til dæmis ákveðna fylgni á milli þess að kaffið kom til Englands og þess að Principia Newtons birtist en þá er súkkulaðið ekki síður mannkynssögulega merkileg vara og hefur verið með okkur miklu lengur en kaffið. Sem „ekki-kaffidrykkjumaður“ fæ ég mér oft súkkulaði á kaffihúsunum þegar ég fer þangað í staðinn fyrir kaffi og öfunda fólk sem er með mér oft mjög mikið af því að geta fengið sér mun ódýrari drykk og jafnvel ábót en ég þarf að fá þennan mun betri en því dýrari drykk í staðinn. En ég vildi inna þingmanninn eftir því hvort hann myndi styðja mig í því að lækka tolla á súkkulaði þegar kemur að fjárlögum.