149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

542. mál
[11:22]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir að flytja þetta mál og tel að í því séu mörg atriði sem geta orðið til bóta og þörf er á að fjalla um á vettvangi þingsins. Þarna er verið að stíga skref sem fela í sér að stjórnsýslustofnun er falið víðtækara vald til að beita refsikenndum viðurlögum. Það er aldrei alveg sjálfgefið þannig að ég geri ráð fyrir að farið verði yfir það á vettvangi nefndarinnar í hvaða tilfellum tilvikum það er nauðsynlegt og æskilegt. Eins um útfærsluna að því leyti.

Stjórnsýslustofnanir af ýmsu tagi hafa heimildir til að beita stjórnsýslusektum en það er í sjálfu sér ekki hægt að halda því fram að það sé almenn regla. Það hlýtur auðvitað að ráðast af aðstæðum í hverju tilviki og hverju málefnasviði fyrir sig. Ég ætla ekki að efast um að tilefni geti verið til þess að Umhverfisstofnun hafi heimild til beitingar stjórnvaldssekta en ég held hins vegar að fjalla þurfi á vettvangi nefndarinnar um tilefni lagasetningarinnar að þessu leyti og hugsanlega framkvæmd.

Við snöggan lestur á frumvarpinu voru nokkur atriði sem ég rak augun í sem mér finnst að hv. umhverfis- og samgöngunefnd þurfi að skoða, fyrir utan þá grundvallarspurningu um sektarheimildir Umhverfisstofnunar. Eitt er þegar verið er að setja viðurlagaheimildir af þessu tagi inn í löggjöf, þá þarf að ganga þannig frá að um sé að ræða skýrar refsiheimildir sem halda fyrir dómstólum. Við höfum dæmi um það á öðrum sviðum frá undanförnum árum að svo hefur ekki verið þegar í sérlögum er kveðið á um refsikennd viðurlög eða refsiheimildir á stjórnsýslustiginu. Það er atriði sem fara þarf yfir.

Með sama hætti þarf að velta fyrir sér greinarmun annars vegar á því sem við getum kallað þvingunarúrræði, eins og dagsektir og þess háttar, og hins vegar hinum eiginlegu stjórnvaldssektum. Þvingunarúrræðunum er ætlað að knýja þá aðila sem við er að eiga til þess að færa starfsemi sína í það horf að hún sé í samræmi við lög og skyldur þeirra að öðru leyti. Það lýtur síðan ákveðnum lögmálum hvernig þvingunarúrræðum er beitt.

Hins vegar er sú stjórnvaldssekt sem er ákvörðun refsikenndra viðurlaga, sem er svolítið annað og í sjálfu sér viðkvæmara svið eins og allt sem lýtur að refsirétti og þarf að nálgast það með varfærnum hætti hvernig löggjafinn tekur á því.

Ég velti fyrir mér spurningum í því sambandi, m.a. um það sem hér er kveðið á um, að í raun og veru sé gert ráð fyrir því að dagsektir falli ekki niður þrátt fyrir að aðili uppfylli skyldur sínar. Það er spurning hvernig um það er búið. Það er ekki óþekkt í lögum. Ég man eftir einhverjum fordæmum fyrir því að þannig sé tekið á málum af þessu tagi en þá hefur kannski verið skýrar um það búið, a.m.k. þarf að gæta þess í þessu sambandi að dagsektir hafa ákveðinn tilgang sem þvingunarúrræði en eru í sjálfu sér ekki refsing fyrir eitthvert brot. Það þarf að gæta þess.

Það sem stakk hins vegar mest í augu þegar ég var að skoða þetta mál voru ákvæði 9. og 11. gr. varðandi gjaldtöku eða heimildir, annars vegar heilbrigðisnefnda og hins vegar Umhverfisstofnunar til að innheimta gjöld. Stofnunum er, að fenginni lagaheimild, heimilt að innheimta þjónustugjöld og hér er væntanlega um að ræða slík þjónustugjöld sem lúta þeim lögmálum. Ég set hins vegar spurningar við þá liði í 9. og 11. gr. sem lúta annars vegar að eftirfylgni eftirlits og beitingu þvingunarúrræða og hins vegar álagningu stjórnvaldssekta. Því að ef lagatextinn er skoðaður eins og hann kemur fyrir í frumvarpinu má skilja það svo að stofnunin, hvort sem um er að ræða Heilbrigðiseftirlitið eða Umhverfisstofnun, geti innheimt þjónustugjöld fyrir að beita þvingunarúrræði, þ.e. stofnun ákveður að setja á dagsekt eða eftir atvikum stjórnvaldssekt, sem eru þá viðurlög við afbroti. Ég velti fyrir mér: Er það ekki nýmæli í íslenskri löggjöf að hægt sé að innheimta þjónustugjald fyrir slíkt? Ég geri ekki athugasemd við þjónustugjöld vegna leyfisútgáfu eða eftirlits eða þess háttar. Hitt finnst mér vera dálítið sérstakt og ég vænti þess að nefndin muni fara yfir það með sérfræðingum hvernig það passar inn í kerfið að öðru leyti.

Ég ætla ekki að hafa fleiri ummæli um þetta frumvarp á þessu stigi. Ég á ekki sæti í hv. umhverfis- og samgöngunefnd en ég geri ráð fyrir því að þau atriði sem lúta að tilefni heimilda til að beita refsikenndum viðurlögum verði skoðuð. Að skoðaður verði skýrleiki þeirra ákvæða sem þarna eru undir og menn velti fyrir sér hvort sú útfærsla sem hér er að finna, m.a. varðandi gjaldtöku, sérstaka innheimtu þjónustugjalda fyrir beitingu þvingunarúrræða og refsikenndra viðurlaga, að það verði skoðað af nefndinni í góðu samstarfi við ráðuneytið og aðra sérfræðinga.