152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Völdum fylgir ábyrgð og þegar mistök eru gerð þarf að axla ábyrgð, a.m.k. horfast í augu við mistökin og viðurkenna þau. Þetta er grundvallarmál en stjórnarflokkarnir eiga erfitt með að átta sig á þessu. Afleiðingarnar af því eru því bæði raunverulegar og alvarlegar. Traustið á ríkisstjórninni er í lágmarki og tortryggnin er allsráðandi. Samt heyrast bara undirbúnir fyrirsjáanlegir frasar frá ríkisstjórninni, eintómar afsakanir og afvegaleiðingar, allt fyrir pólitíska hagsmuni, allt til að framlengja líf stefnulausrar ríkisstjórnar. Það eru engin prinsipp því þeim var fórnað, engin auðmýkt því hún var skilin eftir, ekkert gert til að koma til móts við gagnrýni og óánægju. Það er leitt því afstaða forsætisráðherra var allt önnur þegar hún var sjálf í stjórnarandstöðu. Í ræðu sinni fyrir fimm árum síðan sagði hún að íslenskt samfélag væri gegnsýrt af tortryggni í kjölfar einkavæðingarinnar árið 2003. Eina leiðin til að eyða því væri að sýna vönduð vinnubrögð og ráðast í gagngera rannsókn á öllu söluferli bankanna. Eina leiðin til að eyða óvissunni og svara því sem brann á þjóðinni. Eina leiðin til að halda áfram og draga lærdóm af sögunni áður en ráðist yrði í frekari sölu ríkisins í fjármálakerfinu. Að lokum spurði þáverandi hv. þm. Katrín Jakobsdóttir og núverandi forsætisráðherra, með leyfi forseta: „Er ekki ástæða til að ljúka rannsókn á þessu ferli þannig að við fáum allt fram um þetta mál sem hefur hvílt eins og mara á þjóðinni?“

Virðulegur forseti. Ég vil nú spyrja ríkisstjórninni að hinu sama. Er ekki ástæða til þess að læra af sögunni, sýna vönduð vinnubrögð og hefja ítarlega rannsókn á nýlegu útboði ríkisins á sölu á hlut þess í Íslandsbanka? Fá allt fram um málið svo hægt sé að draga lærdóm af ferlinu öllu og horfa síðan fram á veginn? Þessi bolti er nú í höndum ríkisstjórnarinnar og sömuleiðis ábyrgðin á því hvernig fer. Hún getur enn áttað sig á aðstæðunum en ef ekki þá verður einfaldlega annar leikmannabekkur að stíga inn í leikinn og sinna sínum skyldum.