152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[19:55]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og ég er alveg innilega sammála honum. En það sem auðvitað stingur hérna er að það er verið að veita bráðabirgðaleyfi fyrir vinnslu. Til hvers? Af hverju ekki bara að hafa það þannig að þú færð fullt leyfi þegar búið er að uppfylla þær kröfur sem á að uppfylla? Ég efast um að ESA segi að við verðum að búa til eitthvert bráðabirgðaleyfi. Ég efast um það. Ég held að við höfum bara fullt vald til þess sjálf að ákveða að taka þetta þannig út að það sé ekkert verið að gefa nein bráðabirgðaleyfi. Það verði bara sett skýr lög um að það verði engin starfsemi fyrr en búið er að ganga frá öllu og allt sé orðið eins og það á að vera. Þá myndi ég segja að við værum sennilega að ganga betur í lið með náttúrunni. En auðvitað væri það óskandi, eins og ráðherra talaði um, og ég hefði viljað sjá hérna inni strangari lög og helst lög sem sæju til þess að við færum að stöðva þetta gegndarlausa sjókvíaeldi og færa það upp á land, vegna þess að það sýnir sig að það er mun vistvænni vinnsla. Það er hægt að nýta fóðurafganginn í alls konar uppgræðslu og vatnið frá því líka í alls konar ræktun, þetta er eitt það besta sem þú færð fyrir plöntur og annað. Þannig að við vinnum rosalega mikið á því að breyta þessu. Ég vona heitt og innilega að ráðherra sé sammála mér í því að við eigum ekkert að vera að gefa út bráðabirgðaleyfi. Við eigum bara að ganga í það að það sé bara fullt leyfi og ekkert annað.

(Forseti (BLG): Forseta láðist að ýta á einnar mínútu takkann og biðst afsökunar á því. )