131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[16:13]

Dagný Jónsdóttir (F):

Herra forseti. Hér hafa verið ansi fjölbreyttar umræður um þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt sem snýr að lækkun virðisaukaskatts á matvælum. Ýmislegt hefur verið sagt og ég gat ekki látið hjá líða að biðja um orðið vegna þess að andsvörum mínum var lokið. Ég verð að svara aðeins síðasta ræðumanni, hv. þm. Björgvin Sigurðssyni, sem talar hér um hjónaband stjórnarflokkanna sem gengur bara afar vel, verð ég að segja. (BjörgvS: Því miður ...) Já, því miður, segir hv. þm. (Gripið fram í.) en sú er bara staðreyndin.

Annað er auðvitað óskhyggja hv. stjórnarandstöðu en þingmaðurinn gerði hér að umtalsefni til að mynda að Framsóknarflokkurinn kæmi ekki félagshyggjumálum á framfæri. Ég get nefnt sem dæmi 90% húsnæðislán, breytingar á lögum um fæðingarorlof, endurskoðun laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna sem á vonandi eftir að að koma hv. þingmanni þægilega á óvart og fleiri mál sem ... (BjörgvS: Þetta eru mál frá krötunum.) Þetta eru góð og gild félagshyggjumál sem stjórnarflokkarnir hafa unnið saman að.

Ég ætla ekki að fara nánar út í það heldur fara hér örstutt yfir frumvarpið. Auðvitað kemur það sterkt inn í skattaumræðuna almennt að langtímaáætlun ríkisstjórnarinnar var gerð í fyrra og gildir fyrir árin 2005–2008. Að sjálfsögðu vinnur hæstv. ríkisstjórn og stjórnarflokkarnir eftir henni. Þar er kveðið á um svigrúm upp á um 20 milljarða. Þar er skýr forgangsröðun, lækkun tekjuskattsprósentu sem mun kosta um 16 milljarða, eignarskatts um 3 milljarða og erfðafjárskatts 500 millj. Einnig er kveðið á um 3 milljarða pott til barnabóta og annarra verkefna.

Við þurfum síðan að spyrja okkur að því auðvitað hvort við höfum meira svigrúm og vonandi er að svigrúmið aukist og efnahagslífið verði þannig að við getum haldið áfram. Einmitt í því tilliti fer nú fram vinna á milli stjórnarflokkanna þar sem verið er að endurskoða virðisaukaskattskerfið. Þar hafa engar ákvarðanir verið teknar og stendur vinnan yfir. En fullyrðingar hv. þingmanna Samfylkingar sem hér hafa talað um að Framsóknarflokkurinn sé að standa í vegi fyrir ákveðnum leiðum í þessari endurskoðun eru auðvitað úr lausu lofti gripnar og eiga við engin rök að styðjast. Þar hafa hv. þingmenn talað um að Framsóknarflokkurinn sé á móti því að lækka virðisaukaskatt á matvælum. Þetta er ekki rétt. Það er verið að ræða þetta í þessari nefnd og menn þurfa að finna ákveðnar lausnir þar.

Þar er auðvitað fleira undir. Framsóknarmenn töluðu í síðustu kosningabaráttu til að mynda um að lækka virðisaukaskatt á barnavörum. Ég mundi því segja að það væri mikill útúrsnúningur hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni að segja að við séum að skoða lækkun virðisauka á einhverjum lúxusvörum. Ég hef ekki litið á barnavörur sem lúxusvöru hingað til og auðvitað eru inni í þessari umræðu líka stimpilgjöld og annað. Ég held því að þetta hafi kannski verið pínulítið orðum ofaukið.

Það er sem sagt allt undir í þessari endurskoðun og það að tala um að ágreiningur sé á milli stjórnarflokkanna er óskhyggja, eins og ég sagði áðan.

Barnabæturnar hafa verið hér til umræðu. Ég kom inn á þær áðan í andsvörum og fer ekki nánar út í það. Þó er rétt að halda því á lofti að á síðasta kjörtímabili, á fjögra ára tímabili, hækkuðu þær um 37,7% og á sama tíma hækkaði vísitala neysluverðs um 19,7%, sem þýðir að barnabætur hafa hækkað nær tvöfalt á við vísitöluna og því ekki rétt að halda því fram að ríkisstjórnin hafi ekki staðið við bakið á barnafjölskyldum í landinu.

Ég ætla því að segja um þessa endurskoðun á virðisaukakerfinu að ekkert liggur fyrir um það hvernig hún gengur og það er algjörlega ótímabært að túlka þá vinnu á þessu stigi. Við þurfum að meta fyrst og fremst líka hvaða svigrúm við höfum upp á framhaldið að gera. En það er alveg ljóst að við ætlum okkur að lækka skattbyrði almennings og fylgja þannig eftir kaupmáttaraukningu í landinu. Þetta er allt tilgreint í stjórnarsáttmálanum og ætti því ekki að koma hv. þingmönnum á óvart.