131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[16:33]

Halldór Blöndal (S):

Herra forseti. Ég hygg að mjög gagnlegt sé að eiga skoðanaskipti um þau mál sem hér eru rædd, matarverð, virðisaukaskatt og ýmislegt fleira í þeim dúr. Ég hef heyrt á ræðum ýmissa þingmanna Samfylkingarinnar að þeir vilja fara í sögulega upprifjun til þess að reyna að sýna fram á hversu stefna þeirra og flokkanna sem standa að Samfylkingunni hefur verið samræmd frá einu ári til annars og ekki svona hlaupið til og frá eftir því hvort menn eru í stjórn eða stjórnarandstöðu eða hvernig þeir halda að landið liggi yfir höfuð. En ef maður rifjar upp söguna kemur annað í ljós.

Í fyrsta lagi liggur sú stefna Alþýðuflokksins fyrir, sem allir þingmenn Alþýðuflokksins fluttu frumvarp um á Alþingi á sínum tíma, að tekjuskattur skyldi lagður niður. Fyrir því voru færð ýmis rök, m.a. að það kæmi launafólki best, en á hinn bóginn talið fráleitt að skynsamlegt gæti verið að hafa þrep í virðisaukaskatti og má segja að helsti andstæðingur þess hafi verið Jón Baldvin Hannibalsson meðan hann var fjármálaráðherra og kvað svo rammt að því þegar við sjálfstæðismenn lögðum það til haustið 1988 að þeir sórust í fóstbræðralag, leiðtogarnir tveir í þessum svokölluðu A-flokkum, Jón Baldvin Hannibalsson og Ólafur Ragnar Grímsson, að stofna nýja ríkisstjórn um þetta eitt að virðisaukaskattur skyldi ekki lægri á matvörum en hinn almenni virðisaukaskattur í landinu. Fyrrverandi fjármálaráðherra í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar, Jón Baldvin Hannibalsson, og sá fjármálaráðherra sem við tók, Ólafur Ragnar Grímsson.

Það er hægt að rifja upp ýmis snjöll ummæli frá leiðtogunum tveim sem stóðu að stofnun Samfylkingarinnar frá þeim tíma. Auðvitað lá á bak við þetta sú hugsun að þeir ímynduðu sér að með þessum hætti væri hægt að auka það sem heitir samneysla enda mun það vera svo að sú ríkisstjórn sem þá sat hefur verið einhver allra aumasta ríkisstjórn sem setið hefur í landinu.

Það er svolítið merkilegt að heyra þegar formaður Samfylkingarinnar nú, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, talar um að það hafi aldrei komið fyrir að Alþýðusambandið hafi verið kvíðafullt eða fundið að stefnu ríkisstjórnar í efnahagsmálum. Það væri kannski rétt að rifja það þegar þessir tveir menn höfðu farið með ríkisfjármálin frá 1987 og hin næstu ár, Jón Baldvin Hannibalsson og Ólafur Ragnar Grímsson, þá setti verkalýðshreyfingin, atvinnurekendur og bændur ríkisstjórninni stólinn fyrir dyrnar og knúðu ríkisstjórnina í þá þjóðarsáttarsamninga sem við munum eftir. Þá var ástandið þannig í landinu að allsherjaratvinnuleysi blasti við.

Ef við tölum um að einhver gjá geti verið á milli stjórnmálamanna og sérstakra starfsstétta í landinu þá var sú gjá auðvitað á milli þess manns sem byrjaði á því að semja við kennara um verulegar launahækkanir en nam þær síðan á brott með bráðabirgðalögum áður en þær komu til framkvæmda. Sú gjá var síðan brúuð í næstu alþingiskosningum sem fram fóru vorið 1991 og var þeim flokki þá ýtti til hliðar. Þá var brú á ný komin milli Íslendinga og þeirrar ríkisstjórnar sem sat í landinu.

Það má því auðvitað rifja ýmislegt upp í sambandi við siðferði og í sambandi við skattastefnu þeirra A-flokkanna og Samfylkingarinnar sem nú kemur.

Mér þótti það merkilegt áðan þegar ég hlustaði á ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, sem var félagsmálaráðherra 1987 og stóð síðan að því með félögum sínum að slíta stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn af því að lækka átti skatt á matvöru, þegar þessi hv. þm. sagði hér áðan einmitt um þessa hugmynd að lækka matvörur: „Það væri gaman að vita hvað hæstv. félagsmálaráðherra segir um það?“

Hver voru hennar eigin skref sem félagsmálaráðherra í þessu sama máli? Hver voru þau? Að vísu má segja hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur til hróss að hún man ekki alltaf fyrri afstöðu sína þannig að okkur sjálfstæðismönnum tókst að koma Alþýðuflokknum á rétta braut síðar svona í síðustu dögum Jóhönnu Sigurðardóttur sem félagsmálaráðherra 1993 og okkur tókst þá að lækka virðisaukaskatt á matvæli niður í 14%. Ég man eftir því á þeim tíma hversu skemmtilegt alþýðubandalagsmönnum þótti að minna Alþýðuflokkinn á að hann hefði gefist upp fyrir íhaldinu með því að fallast á lækkun matarskattsins. Má lesa um þetta í þingtíðindum. En þetta rifja ég upp til þess að sýna fram á að þeir flokkar og menn sem eru í forsvari fyrir þá hér á Alþingi hafa í raun og veru ekki neina samfellda stefnu í skattamálum sem hægt er að rekja frá einu ári til annars og sem hægt er að reiða sig á.

Við heyrðum núna og vitum það að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir talar gjarnan um þá lægst launuðu og þá sem verst hafa kjörin. Yfirleitt tekst henni með einhverjum hætti að sýna fram á í ræðum sínum að það sem hún segir hverju sinni komi sér best fyrir þá lægst launuðu og þá sem verst hafa kjörin, en hins vegar það sem hinir halda fram, sem eru henni ekki sammála, komi sér verst fyrir þá hina sömu.

Nú segir hv. þm. að með því að lækka virðisaukaskattinn komi það eingöngu hinum lægst launuðu til góða. Ef við hins vegar lækkum tekjuskattinn þá kemur það eingöngu hinum hæst launuðu til góða. Þá spyr maður sjálfan sig: Skyldi það nú vera svo að þunginn af virðisaukaskattinum lendi á hinum lægst launuðu? Auðvitað ekki. Á hinn bóginn er það rétt að lækkun á matarskatti kemur sér best fyrir hina lægst launuðu, sérstaklega barnmargar fjölskyldur, og má segja að um þetta hafi staðið stríð milli Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins, a.m.k. þann tíma sem ég hef fylgst með stjórnmálum, sem eru ekki nema 43 ár, á viðreisnarárunum stöðugt stríð milli Ingólfs Jónssonar landbúnaðarráðherra og viðskiptaráðherra alþýðuflokksmanna.

Við héldum því fram að með því að greiða niður mjólkurvörur og dilkakjöt værum við að koma til móts við fjölskyldur sem væru verst settar. Við knúðum það fram á þeim tíma að slíkar niðurgreiðslur héldu áfram og þær voru stundum auknar sérstaklega þegar þurfti á að halda út af dýrtíð í landinu.

Núna í ræðu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur kom þetta strax fram þegar hv. þm. var að tíunda hvernig hægt væri að lækka matarverð hér á landi með því að ganga í Evrópusambandið. Þá hafði hv. þm. vitaskuld fyrst og fremst í huga hversu mikil lækkunin yrði ef stefna Evrópusambandsins yrði tekin upp í landbúnaðarmálum.

Eins og fram kemur í skýrslu um samanburð á matvælaverði á Íslandi, Norðurlöndum og ríkjum Evrópusambandsins, með leyfi hæstv. forseta:

„Sams konar aðfallsgreining fyrir undirflokka matvöru gefur til kynna að búast megi við að ávextir og grænmeti lækki í verði um 8% ef Ísland tekur upp svipaða landbúnaðarstefnu og Evrópusambandið, brauð og kornvörur lækki um 9%, drykkjarverð haldist óbreytt ...“ — hér er áfengi ekki talið með, það mundi auðvitað lækka í verði og má segja að það sé einn af kostum eða göllum þess að ganga í Evrópusambandið, það fer svona eftir því hvernig maður hugsar og hvað maður drekkur — „mjólk, ostar og egg lækki um 12% en kjöt um 23%. Forspá líkansins um 12% verðlækkun á fiski við Evrópusambandsaðild kemur á óvart...“

Það má nú kannski segja að þetta sé rétt. Maður áttar sig ekki alveg á því hvernig — en öllu skal nú til skila haldið og má vera að ýsuverðið lækki um 12% ef maður gengur í Evrópusambandið. Öðru eins hefur nú verið logið.

En þarna er skýringin komin. Þegar hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir talar um „með leið Samfylkingarinnar“ — „með okkar leið er hægt að lækka matarverð um 30%“ þá er hún auðvitað með það inni í því að hætta stuðningi við íslenskan landbúnað og fella niður öll innflutningshöft og alla tolla á landbúnaðarvörum.

Þetta er auðvitað ákveðin stefna. Ef við förum til nálægra landa, til Svíþjóðar eða Finnlands þá sjáum við hvað þar hefur gerst í málefnum landbúnaðarins, við vitum það og áttum okkur á því að hann er ekki samur nú miðað við það sem áður var, áður en þeir gengu í Evrópusambandið. Það má vera að þetta sé það sem Samfylkingin sér fyrir sér. Ef það er ekki þetta þá væri fróðlegt að fá það upp: Hvernig ætlar Samfylkingin að sýna fram á að hún geti lækkað matarverð um 30%?

Hún getur það ekki einu sinni með þessu, eða hvar ætlar hún að fá efni til þess?

Það kemur fram í þessari skýrslu hversu strjálbýlt Ísland er, og er þá borið saman við Þýskaland, með leyfi hæstv. forseta:

„Hér búa þrír menn á ferkílómetra lands en í Þýskalandi búa 230 manns á ferkílómetra. Því nýtist stærðarhagkvæmni í verslun og framleiðslu ekki eins vel á Íslandi og í þéttbýlli löndum. Samkvæmt líkaninu ýtir fólksfæðin verðlagi hér á landi upp um 20% miðað við Þýskaland og mismunandi hitastig um 6%.“ Ísland er miklu strjálbýlla land en Þýskaland.

Við sjáum að það er ýmislegt sem kemur til í sambandi við slíkan samanburð sem nauðsynlegt er að reyna að gera sér grein fyrir.

Auðvitað getum við allir hv. þingmenn, eins og ég gerði áðan, rifjað upp eitt og annað úr sögu flokka okkar frá mismunandi tímum í ríkisstjórn hvort við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu. En ef flokkur sem alltaf hefur við orð að hann telji sjálfan sig ábyrgan, ef þessi flokkur treystir sér til að segja að hann hafi fundið ráð til þess að lækka matarverð um 30% þá er a.m.k. lágmark að þessi flokkur reyni að sýna fram á að það séu ekki nema helmingsýkjur, reyni þá a.m.k. að sýna fram á að hann geti lækkað matarverð um 15%. Og hvernig ætlar hann að fara að því? Hvaða leiðir eru til þess?

Það má auðvitað segja að menn vilji hér erfðabreyttar landbúnaðarvörur og að menn vilji hafa steraefni í matvælum til þess að lækka verðið. Meðan ég var landbúnaðarráðherra þá kom það fyrir að utanríkisráðherra sem var í Alþýðuflokknum, leyfði innflutning á kjúklingalöppum frá Kanada, ég hygg að það hafi verið steraefni í þeim. Það má vel vera að það sé það sem þessir háttvirtir þingmenn séu að berjast fyrir að við höldum ekki þeim stöðlum og kröfum sem við höfum gert um hollustu í matvælum og vilji fara út í að leyfa að hægt sé að flytja inn hvað eina. Það má vera að það sé á bak við þann samanburð og að það sé á bak við fullyrðingarnar sem Samfylkingin er með.

En ef það er ekki raunin hvernig ætlar Samfylkingin þá að lækka verð á matvörum um 30%, hvernig ætlar hún að fara að því ef það á að halda uppi hollustu í landinu? Ég geri mér grein fyrir því að með málflutningi sínum vill Samfylkingin auðvitað ekki hafa neinn skatt á sykri, gosdrykkjum og öðru því um líku, látum það vera. Það er skoðun út af fyrir sig.

En auðvitað liggur það fyrir að aðild Íslands að Evrópusambandinu skiptir engu máli um vöruverð hér á landi. Það er ekki hægt að benda á eitt né neitt í því sambandi. Við Íslendingar getum sjálfir fellt niður öll aðstöðugjöld á þeim fáu stöðum þar sem þau eru á matvælum. Við getum sjálfir lækkað virðisaukaskatt á matvælum og ef við viljum látið hið sama gilda um matvörur hvaðan sem þær koma til landsins þannig að engar hömlur verði og það kemur Evrópusambandinu ekkert við. Við þurfum ekki að sækja alla vitneskju til annarra landa og höfum getað bjargað okkur sjálfir hér á Íslandi þau ár sem við höfum verið hér og þurfum ekki á hjálp að halda til að stjórna efnahagsmálum okkar, enda hefur ekki verið sýnt fram á hvað það er sem ætti að lækka við slíka aðild. Á hinn bóginn liggur fyrir að aðild okkar að Evrópusambandinu mundi kosta okkur stórkostlega fjármuni sem við þurfum ekki að greiða nú, en sem hlyti að sjálfsögðu til lengdar að bitna á lífskjörum okkar því eins og sakir standa nú er ávinningurinn af því að ganga í Evrópusambandið enginn.

Þegar menn eru að tala um: Ja, við viljum láta sækja um aðild að Evrópusambandinu bara til að sækja um aðild án þess að segja nokkuð um hvort viðkomandi vilji vera í Evrópusambandinu eða hvaða skilyrði menn setji fyrir aðild að Evrópusambandinu og án þess að gera grein fyrir hvar þeir standi þá er slíkt auðvitað markleysa.

Auðvitað er það svo bæði um tekjuskattinn og virðisaukaskattinn að þeir sem hafa meiri tekjur borga hærri tekjuskatt, sumir ekki neitt. Eins er það um virðisaukaskatt, þeir sem hafa meiri tekjur og eyða meira greiða auðvitað meiri virðisaukaskatt en hinir. Þetta vitum við öll. Það hefur ekki, svo mér sé kunnugt, farið fram nein athugun á því hvernig það skiptist á milli ríkra og fátækra hverjir greiða svo og svo mikið af virðisaukaskatti. En hitt er auðvitað ljóst, jafnljóst nú og þegar Alþýðuflokkurinn sleit samstarfi við okkur sjálfstæðismenn út af virðisaukaskattinum, eða þegar við knúðum fram að Alþýðuflokkurinn stæði með okkur um lækkun á virðisaukaskatti, að lækkun á matvörum skiptir mestu fyrir þá sem minnst mega sín, fyrir barnafjölskyldur og aðra þvílíka. Þetta skulum við hafa í huga.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Mér þótti nauðsynlegt að koma fram með nokkrar athugasemdir vegna þess hvernig Samfylkingin lagði mál sitt upp og vegna þess að það var greinilegt að undir þeim málflutningi var ekki sá grundvöllur sem hægt var að reiða sig á. Málflutningurinn var út og suður, röksemdafærslan að 7% lækkun á virðisaukaskatti valdi 30% lækkun á matvörum er náttúrlega skemmtiefni en má segja að það sé góður liður í talnaleik Samfylkingarinnar, og það get ég sagt, herra forseti, með fullum sanni að ef ég hefði ekki verið við þessar umræður og einhver hefði sagt mér að 7% lækkun á virðisaukaskatti þýddi 30% lækkun á matvælum og ég væri spurður: Hvaða flokkur heldur þessu fram? Þá hefði ég sagt: Áreiðanlega Samfylkingin.