140. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2011.

afskriftir og afkoma bankanna.

[15:56]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir að hefja þessa umræðu og tek undir með honum og hæstv. ráðherra um að mjög mikilvægt sé að menn ræði þetta út frá réttum upplýsingum. Ég vil árétta að ég var búinn að bera upp áður þá fyrirspurn sem vitnað var til áðan, til þáverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra Gylfa Magnússonar. Þá kom svarið mjög stutt og laggott: Þessar upplýsingar er ekki hægt að veita þinginu vegna bankaleyndar. Síðan var skipt um ráðherra og ég lagði nákvæmlega sömu spurninguna fram og henni var svarað samviskusamlega. Við þurfum fyrst og fremst að hafa réttar upplýsingar.

Ég vil þó líka segja að það er mjög mikilvægt að bankastofnanir og fjármálafyrirtæki skili til baka til fyrirtækjanna og heimilanna í landinu þeim afskriftum sem þeir sannarlega geta veitt þeim. Við verðum að muna að það voru ekki heimilin sem settu bankana á hausinn, það voru bankarnir sem settu heimilin á hausinn, mörg hver.

Ég staldra líka dálítið við þetta umhverfi. Ekki þarf að deila um að það sem skapar núna hagnað bankanna er fyrst og fremst uppfærsla á eignasöfnum og síðan vaxtamunur. Ég hef mjög miklar áhyggjur af því, og það kristallast í þessu umhverfi sem við erum margoft búin að gagnrýna hér, að þegar innlánin streyma inn í bankana vegna pólitískrar yfirlýsingar um að ríkisábyrgð sé á innlánunum, þá er ekkert atvinnulíf til að taka við fjármunum úr bönkunum til að ávaxta þá fyrir bankana og þar af leiðandi innlánseigendur. Það sem gerist er að bankarnir setja peningana yfir í Seðlabankann og búa þannig til vaxtamuninn, síðan kemur ríkissjóður þar á eftir í röðinni. Til að hann geti fjármagnað vaxtamuninn við Seðlabankann verður hann að skattleggja einstaklinginn þannig að við erum með hagkerfi sem fer í hring. Við þurfum að búa þannig um hnútana að hér sé atvinnulíf sem geti tekið við peningunum og ávaxtað þá, svo að fjármálakerfið verði með eðlilegum hætti.

Að lokum þetta, virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að bankastofnanirnar nýti það svigrúm (Forseti hringir.) sem þær hafa til að leiðrétta lán heimilanna og fyrirtækjanna í landinu.