145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

kjör aldraðra og öryrkja.

[16:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Þetta hefur verið ágætisumræða. Það koma fram ólíkar áherslur, sumir telja rétt að auka útgjaldastig ríkisins og nefna því til fjármögnunarleiðir til að hækka skatta. Ég veit að hér hafa verið nefndar ýmsar leiðir til þess, menn hafa boðað skattahækkanir, sumir hverjir upp á tugi milljarða, í umræðum um þessi mál undir öðrum dagskrárliðum.

Ferðaþjónustan er nefnd, veiðigjöld eru nefnd, hitt og þetta er nefnt, en það gleymist dálítið í þeirri umræðu að þetta er ekki bara spurning um að finna tekjur, þetta er líka spurning um að stjórna útgjaldastigi ríkisins til lengri tíma.

Hvað sem því líður þá erum við hér að ræða um viðkvæman hóp sem er að fá mikla kjarabót í því fjárlagafrumvarpi sem nú hefur nýlega verið kynnt. Það skiptir miklu. Það skiptir líka miklu að halda áfram góðu samtali við þann hóp og finna leiðir til þess að gera betur þar sem við finnum fyrir viðkvæmustu hópana. Mér finnst vera góður samhljómur varðandi það að endurskoðun almannatrygginga getur skipt miklu hvað það snertir.

Varðandi bætur almennt — og hér kom hv. þm. Oddný Harðardóttir inn á þær — þá hef ég verið þeirrar skoðunar til dæmis að um atvinnuleysisbætur giltu önnur lögmál. Ég er mótfallinn þeirri stefnu sem Samfylkingin hefur rekið hér í þinginu að það væri rangt að stytta atvinnuleysisbótatímann úr þremur árum niður í tvö og hálft. Þau lögðust líka gegn því að virkni ætti að vera úrræði fyrir félagslegri aðstoð sveitarfélaga. Mér finnst það vera röng stefna og félagsmálaráðherrann lagði fram frumvarp um það efni sem ég held að við hefðum betur afgreitt. Og ég er ekki þeirrar skoðunar að atvinnuleysisbætur eigi að vera jafn háar lægstu launum, ég er bara þeirrar skoðunar. Það gildir annað um þá sem hafa lokið starfsævinni eða eru varanlega dæmdir út af vinnumarkaði vegna örorku, það gilda bara önnur lögmál þar.

Varðandi það sem hv. þingmaður og frummælandi nefnir um lyf og komið hefur verið inn á varðandi þá sem eru að missa heyrn — þetta eru mál sem við þurfum að taka betur á. Þess vegna er það líka (Forseti hringir.) fagnaðarefni að heilbrigðisráðherra hefur sagt að hann ætli að útrýma biðlistum eftir augnsteinaaðgerðum og ýmsum aðgerðum, þar á meðal bæklunaraðgerðum. Þetta er mál sem við höfum eyrnamerkt sérstaka fjármuni í.